Rosalegur urriði í Veiðivötnum

Daníel Dagur með ferlíkið, virðist vera hrygna. Myndina tók Jóhann Ölvir Guðmundsson, en VoV fann hana á vef Veiðivatna.

Risaurriði veiddist í vikunni í Veiðivötnum, óvenju stór þó að svæðið sé þekkt fyrir stóra fiska. Um er að ræða 16 punda drjóla, 89 cm og 51 cm í ummál. Gamall höfðingi laut í gras, eða öllu heldur möl.

Daníel Dagur heitir veiðimaðurinn og gaman að segja frá því að hann veiddi tröllið á flugu, Olive Dýrbít. Grænavatn, það annálaða stórfiskavatn, var vettvangurinn. En um síðustu veiðivikuna segir eftirfarandi á vefsíðu Veiðivatna:

„Mjög góð veiði var í 6. veiðivikunni, 1946 fiskar komu á land. Þetta er mun betri veiði í 6. viku en undanfarin ár. Í vikunni veiddust 1393 urriðar og 553 bleikjur. Flestir fiskar veiddust í Litlasjó, 852. Þetta er lang besta veiðivikan í Litlasjó það sem af er sumri. í Snjóölduvatni veiddust 313 fiskar í vikunni, mest bleikja. Stærsti fiskur sumarsins er 16,0 pd urriði úr Grænavatni.“

Síðan geta lesendur farið inn á veidivotn.is og skoðað töflur, myndir og tölur, en við viljum bæta við að Veiðivatnavefurinn heldur líka utan um vötnin „sunnan Tungnár“ eins og það er kallað. Það eru all mörg vötn, misgóð að sjálfsögðu, og sum þeirra eru klárlega ofsetin af bleikju. En innan um eru greinilega perlur. Tökum dæmi:

Dómadalsvatn hefur gefið 226 fiska, allt urriða. Meðalþyngdin er 1,4 pund og stærsti skráði fiskurinn 8 pund. Perla þar á ferð. Annað hreint urriðavatn á svæðinu, Ljótipollur, gígurinn frægi og fagri, hefur gefið 328 urriða, meðalþyngd 1,9 pund og stærst skráð 5 pund. Algjör perla þar einnig.

Af bleikjuvötnunum á þessu svæði fer það orð gjarnan að mikið sé af smáum fiski, en við skoðun á tölum úr Kýlingavötnum má sjá að til eru undantekningar. Ekki vitum við um ástundun, en skráðir hafa verið 147 fiskar, þar af 112 bleikjur. Meðalþunginn er 1,6 pund og stærstu skráðu fiskarnir 6 pund. Enn ein perlan.

Frægasta vatnið á þessum slóðum, og mögulega það fallegasta, er svo Frostastaðavatn. Það er fyrst og fremst bleikjuvatn og þar hefur verið reynt að grisja af og til. Bleikjan er frekar smá, en mikið er af henni. Þar voru nýverið skráðir 963 fiskar, þar af 919 bleikjur. Meðalþyngd er þó aðeins 0,4 pund og stærstu skráðu fiskarnir 2 pund. Svo virðist sem að frekari grysjunar sé þörf