Erfiðasta sumarið í Vatnsá

Vatnsá, Frúarhylur
Frúarhylur í Vatnsá. Þarna er lítið vatn í ánni, en er nú mun minna. Mynd -gg.

Veiði hefur ekki gengið eins vel og skyldi í Vatnsá í Heiðardal ofan Víkur. Ástæðan er furðu langir þurrkar í þessu annálaða rigningarbæði. Áin í grjóti, lax kominn upp í vatn og heldur sig þar og lax í jökulánni Kerlingardalsá, sem Vatnsá rennur í. Hreyfir sig ekki þaðan við núverandi aðstæður.

Ásgeir Arnar Ásmundsson, umsjónarmaður Vatnsár sagði í samtali við VoV að sumarið hefði verið erfitt. Eftir góðan gang í fyrra hefðu menn haft góðar væntingar, en það hafi ekki gengið eftir. „Vatnsá er alveg í grjóti núna, það hefur ekkert rignt og áin er glær og lítil“, sagði Ásgeir. „Síðan er það ekki að bæta ástandið að Vatnsá rennur nú í þremur kvíslum út í Kerlingardalsá og varla vinnandi vegur að fara með gröfu í að laga það því að það er allt fullt af seiðum þarna niður frá,“ bætti Ásgeir við.

Þó er búið að landa nokkrum löxum og birtingum í ánni það sem af er, hópur sem VoV þekkir til setti í fimm laxa, en missti alla. Tökur grannar við þessi erfiðu skilyrði. Vatnsá hefur löngum veirð talin síðsumarsá og á eflaust talsvert inni ef að skilyrði tækju upp á því að breytast til hins betra. Á það sama við margar ár, víða á landinu.