Vatnamót, Vatnamótin, Ólafur Guðmundsson
Hann er sprell lifandi greyið. Mynd Ólafur Guðmundsson.

Við nefndum í samantektarfrétt í gær að góð veiði hefði verið í Vatnamótunum það sem af er. Okkur vantaði samt tölur, en ansi var þar grunt í árina tekið, því það hefur verið sannkallaður landburður af fiski á svæðinu. Algert mok!

Já, Vatnamótin hafa ekki verið útundan í þeirri stórkostlegu byrjun á sjóbirtingsvertíðinni sem raun ber vitni. Þvert á móti. Á veiðileyfasöluvefnum veida.is fundum við það sem uppá vantaði í frétt okkar í gær, tölur til að styðja við þær fregnir sem borist hafa. Sem dæmi var tekið að holl sem lauk veiðum 7.apríl síðast liðinn hefði skráð til bókar 207 sjóbirtinga og haft var eftir Ragnari á Hörgslandi, leigutaka svæðisins, að fiskur “væri út um allt”. Hópurinn sem tók við þann 7.4 fékk 70 stykki á fyrstu vakt og voru þá komnir 540 fiskar í bók á fimm stangir eftir sjö fyrstu veiðidaganna. Síðan hefur veiði haldist frábær og sagði t.d. Einar Lúðvíksson leigutaki Tungufljóts í skeyti til okkar í dag(miðvikudag) að hann teldi að þúsund fiskar væru komnir á land á vatnasvæði Kúðafljóts/Skaftár, “mest úr Vatnamótunum”, eins og þar stóð.

Síðan má velta fyrir sér framhaldinu. Mjög mikið hefur verið af fiski í Vatnamótum Geirlandsár og Stjórnar og allur sá fiskur á eftir að hafa viðkomu í Vatnamótunum á leið sinni til sjávar. Í ofur venjulegu ári getur verið að veiðast á þessum slóðum vel inn í maimánuð, en fiskmagnið nú bendir til að næstu vikur geti orðið fjörugri en gengur og gerist.