Laxá í Kjós
Rétt áður en sá erlendi setti í og landaði 101 cm 21 pundaranum, landaði hann 90 cm hrygnu á sama veiðistað, Laxfossi að sunnan. Myndin er frá Hreggnasa.

Einn af stærstu löxum sumarsins var dreginn á land í Laxá í Kjós fyrir skemmstu, 101 cm og veginn 21 pund, gullfallegur nýgenginn hængur dreginn úr Laxfossi að sunnan. Erlendur veiðimaður sem á stönginni hélt fékk 90 cm hrygnu í fyrstu yfirferð og hélt að hann gæti ekki toppað það….en hann gerði það svo sannarlega!

Laxá í Kjós
Glæsilegur 101 cm hængur úr Laxá í Kjós. Myndin er frá Hreggnasa.

„Þessi dreki veiddist í Laxfossi að sunnan s.l laugardag. Erlendur veiðimaður sem setui í hann og landaði. Rétt áður hafði hann landað 90 cm hrygnu, glæsileg tvenna það!,“ sagði Haraldur Eiríksson sölustjóri Hreggnasa í samtali við VoV í kvöld. Fregnir hafa borist af sterkum göngum síðustu daga, göngum er tengjast væntanlega stóra straumnum um mánaðamótin. Um það sagði Haraldur:  „Við erum í skrítinni stöðu. Feikna vatn og kalt. Neðan Laxfoss eru göngur síðustu 10 daga. Laxfoss hefur verið ólaxgengur. Áin er mjög þétt frá Laxfossi niður í Hökla. En uppáin og Bugða bara með gamla fiska

En það er rétt hjá Ingó og fleirum í Borgarfirðinum þegar þeir segja að það er enn að ganga 2ja ára lax í bland við smálaxinn. Ekki hvað síst hængar sem eru svo eftirsoknaverðir, 12-16 punda fiskar.  Það liggja ca 200 laxar í Laxfossi. Þetta er að verða illveiðandi með þannig magn. Svo er að ganga stóri birtingurinn í þokkabót sl tvo daga. Þetta er að verða hálfgerður suðupottur. En hún er áin byrjuð að detta. Vatnskuldinn þó enn mikill og við erum enn í snjóbráð!“ bætti Harlaldur við.