Ein besta opnunin var í Grímsá

Gullfallegur vorlax úr Grímsá. Myndin er af FB síðu Hreggnasa.

Ein besta opnun laxveiðiár á Íslandi þetta sumarið var í Grímsá. Þar er aðeins veitt á fjórar stangir og komu 24 laxar á land þar í fyrsta hollinu. Flestir þeirra laxa voru tveggja ára laxar, allt að 90 cm tröll.

Þegar allt er skoðað, þá hefur laxveiðin gengið upp og ofan. Þjórsá, Blanda og Miðfjarðará hafa staðið uppúr, Elliðaárnar verið skemmtilegar á meðan að Norðurá hefur verið sérstaklega slök. Þverá/Kjarrá væri í sama flokki ef ekki kæmi til veiði í Brennu, þar sem laxinn safnast saman og bíður eftir betri skilyrðum. En veiðimenn við Grímsá geta ekki kvartað, áin heldur vatni betur en flestar og veiði hefur verið góð. 24 laxar á 4 stangir á fyrstu tveimur dögunum er algerlega frábær veiði.