Stærri árnar gefa tóninn

Jón Mýrdal landaði þessari boltahrygnu í Urriðafossi fyrir skemmstu. Mynd Stefán Sigurðsson.

Laxveiðin gengur alveg prýðilega í þeim ám sem hafa almennilegt rennsli. Þetta eru aðeins fáar ár sem eru opnar enn sem komið er, en tvær þeirra Blanda og Þjórsá hafa gefið prýðilega þrátt fyrir að vera „vatnslitlar“. Þeir sem hafa yfir að ráða vatnsminni ám geta huggað sig nokkuð við að þar sem eru þokkaleg skilyrði, þar er lax að ganga. Sem sagt, hann mun skila sér.

Þau Harpa og Stefán hjá IO greindu frá því í dag að Urriðafoss í Þjórsá hefði gefið alls um 160 laxa þessa fyrstu tíu daga vertíðar. Þó er Þjórsá með lága vatnsstöðu miðað við hennar „norm“, þetta er bara svo tröllslegt fljót að það kemur ekki að sök. Eigi að síður er einn aðal veiðistaðurinn, Lækjarlátur, lítið að gefa vegna lágrar vatnsstöðu árinnar, en hinn aðalstaðurinn á svæðinu, Hulda, hins vegar að slá eftirminnilega í gegn.

Jóhann Davíð Snorrason sölustjóri hjá Lax-á, leigutaka Blöndu, landaði þessari glæsilegu hrygnu í ánni í dag, en í morgun kom m.a. 94 cm hrygna, veiðimaður var Jóhannes Hinriksson, umsjónarmaður Ytri Rangár.

Nær allt er þetta stórlax til þessa, en eitthvað er farið að bera á smálaxi, sem menn tala um að sé frekar snemmt. Reynsla síðustu ára er hins vegar sú að smálax hefur verið færa sig framar á sumrin en áður.

Blanda opnaði fimm dögum á eftir Urriðafossi og fyrsta einn og hálfan daginn lönduðu fjórar stangir 22 löxum. Allt boltafiskum. Síðan hefur veiði verið góð þó við höfum því miður ekki heildartöluna akkúrat núna, en allar vaktir eru að gefa nokkra fiska. Straumur er stækkandi núna og verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

Í Borgarfirði heldur Brennan áfram að gefa, en það eru sömu erfiðleikarnir ofar í kerfinu, í Þverá, Kjarrá og Norðurá. Þó er komið nokkuð af laxi, bara erfitt að fá tökur. Leigutakar segja að lax sé að finna í 10-12 hyljum Kjarrár, allt að 30-40 samankomnir, eins og í Neðri Johnson. Það þyrfti kannski ekki annað en það dragi ský fyrir sólu og hlýnaði aðeins. Hvað lítið sem það er, þá mun það skipta máli.