„Ekki gott sumar….“

Það er víða fallegt við Sunnudalsá. Mynd Jóhanna Hinriksdóttir.

„Þetta er bara alls ekki gott sumar og ég hef ekki áhuga á því að tala það eitthvað upp út af tölum einhvers staðar. Þetta er samt að sumu leyti öfugsnúið með tilliti til talna,“ sagði Gísli Ásgeirsson frkvæmdastjóri Six Rivers Project, sem fer með málefni flestra laxveiðiáa á Norðausturhorniu.

Eftir nokkur góð ár og stíganda, er staðan alls ekki eins góð í sumar. Selá gaf í fyrra1258 laxa og enn fleiri 2019 á meðan flestar ár landsins voru skrapandi tunnubotninn. Hofsá á sama tíma góðum stíganda eftir mögur á og komst í 1017 laxa, hennar besta tala í mörg ár. En fyrir tæpri viku var Selá með 559 laxa og Hofsá með 420. Og komið að lokum ágúst.

Gísli segir að þetta sé þó að sumu leyti öfugsnúið og segir að þrátt fyrir fremur slaka tölu sé meira af laxi gengið upp fyrir Selárfoss en í fyrra. Það getur komið niður á veiðitölum því eins og Gísli og Hilmar Jónsson leiðsögumaður sögðu í samtali við VoV í kvöld, að síðustu sumur var hægt að veiða laxinn þar sem hann bunkaði sig neðarlega vikum saman. Núna hefðu skilyrði til göngu verið miklu hagstæðari og lax dreift sér um alla á strax í byrjun.

Aðspurðir hvort að nýjar reglur um veiðiaðferðir gætu skipt máli, sem sagt, engir sökktaumar, engar þyngdar flugur og krókastærð ekki yfir 12, sagði Gísli að það hefði ekki komið að sök í fyrra og í sumar hefðu lengst af verið kjörskilyrði fyrir svoleiðis veiðiskap. Hilmar tók undir það og sagði að einn og ein kúnni væri til í að setja kóninn undir, en það væri ekki í boði og þetta fyrirkomulag væri komið til að vera. Spáði hann því að auki að ámóta reglur yrðu senn teknar upp víðar.

Sunnudalsá er í þessum hópi Six Rivers Project. Hún hefur átt erfitt í sumar og aðdáendur hennar vona að hún eigi gott haust inni. Í dag voru innan við 20 laxar komnir á land. Hún var lokuð fyrir veiði í fyrra, en 2019 veiddust í henni 70 laxar og þótti slakt, ca 120 sumarið á undan og þótti nærri lagi meðaltali hennar.