Sjóbirtingur að færa út kvíarnar í Kjósinni?

Rosalegur birtingur úr Bugðu í dag! Mynd Skúli Kristinsson

Við höfum oft talað um hversu mikilvægt það er fyrir veiðiár að hafa sterka stofna af öðru en laxi, því ef hann klikkar, þá geta hinar tegundirnar veitt veiðimönnum skjól.

Sums staðar, eins og víða fyrir norðan, þá sér sjóbleikjan um þessa vernd og sjóbirtingur reyndar í vaxandi mæli vegna þess að bleikju hefur farið fækkandi. Sunnar á landinu er minna af bleikjunni og þá er það sjóbirtingurin sem kemur við sögu.

Eitt af bestu dæmunum er Laxá í Kjós. Og myndbirting Skúla Kristinssonar veiðileiðsögumanns á svæðinu bendir til smá kúvendinga. Hingað til hefur birtingurinn aðallega verið bundinn við miðbik Laxár, en veiðikonan sem Skúli birtir myndina af er tekin í Bugðu.

Fyrir þá sem ekki vita, þá er Bugða hliðará Laxár sem rennur úr Meðalfellsvatni. Sjálf kemur Laxá í Stíflisdalsvatni. En hingað til hefur ekki verið mikil eða rík hefð fyrir því að sjóbirtingur gangi upp í Bugðu. En nú gæti verið að detta inn breyting þar á. Hvað sem því líður, það er mikið af laxi í Laxá, en skilyrðin hafa verið afleit lengi vel. Hún á mikið inni eins og margar aðrar ár á vestanverðu landinu og þegar fer að kólna og rigna, þá breytast hlutirnir fljótt.