Opnanir í Vatnsdal og Víðidal

Björn Kristinn Rúnarsson með glæsilega hrygnu úr Hnausastreng í Vatnsdalsá.Myndin tekin í fyrra.

Veiði hófst í morgun í Víðidalsá og eftir hádegi fór nágranninn í næsta dal, Vatnsdalsá í gang. Báðar eru illa farnar eftir langa þurrka, en einhver væta undir það allra síðasta hefur örlítið bætt úr. Það var líf í báðum ánum.

Nú vantar okkur nokkuð upp á nákvæmnina, en í Víðidalsá veiddust fjórir laxar á morgunvaktinni og einhverjir til viðbótar sluppu. Í Vatnsdalsá vitum við með vissu um tvo og eitthvað heyrðum við um fleiri og reynum að staðfesta það sem fyrst, kannski þó ekki endilega í kvöld. Umræddir tveir voru dregnir úr Hnausastreng.

Af öðrum opnunum dagsins, sem við höfðum áður greint frá, þá endaði Ytri Rangá með 19 laxa sem er harla fín byrjun. Sama má segja um Elliðaárnar þar sem lokatala dagsins var 15 laxar, sem sagt sex til viðbótar eftir hlé. Og það sem meira er, það héldu stórlaxar áfram að taka agn veiðimanna. Flestir þessara 15 laxa voru tveggja ára fiskar sem er fáheyrt í opnun. Oftast veiðast bara örfáir yfir heila vertíð.