Rok og grugg og fínasta veiði samt!

Árni Friðleifsson með einn hörku vænan úr Laxá í dag.

Veiði hófst í Laxá í Mývatnssveit í dag og voru aðstæður krefjandi. Það hafði hvesst mikið eftir staðviðri og þar sem hlýnaði samhliða þá gruggaðist árvatn Laxár. Samt var þarna mætt vösk sveit manna og veiddi nokkuð vel miðað við aðstæður.

Ekki liggja fyrir tölur eftir daginn en samkvæmt fregnum VoV voru menn að berjast við rokið og setja í fiska á púpur, aðallega. Og fiskurinn var vænn og vel haldinn eftir veturinn. Við getum vonandi flutt nánari fréttir af opnuninni á morgun, sjáum til með það, en opnunin lofar góðu. Það er auðvitað alltaf nóg af fiski þarna, en það sem skiptir máli er hvernig hann kemur undan vetri.