Þegar fyrsta haustlægðin kemur verður bingó

Glímt við vænan fisk í Króarhamri í Laxá í Kjós. Myndin er aðsend frá Haraldi Eiríkssyni.

Það dylst engum að þó að Norðurá og Þverá/Kjarrá séu að gera betur en í fyrra, þá er það ekkert afrek í sjálfu sér, svo langt eru þær samt frá sínu besta. Þetta var þó betra en 2019. Nú heyrist víða að, að það sé talsvert af laxi, en hvað veldur þá þessum döpru tölum.

Það er ekki ætlunin hér að vera með bölmóð, en tölurnar til þessa hafa ekki „verið upp á marga fiska“ eins og gamla máltækið segir. Ef horft er á tölur angling.is, og það koma nýjar vikutölur eftir tvo daga, þá virðist að Suðvestur- og Vesturlandið eigi möguleika á því að ná „hæðum“ síðasta sumars og við endurtökum, þá er miðað við hörmungina 2019. Hins vegar sýnist lengra í það á Norðurlandi og Norðausturlandi, sem þó hefur staðið nokkuð úppúr síðustu sumur. Síðan eru Rangárnar kapítuli út af fyrir sig. Þar ráða öfgarnar för.

En við heyrðum aðeins hljóðið í staðgóðum tíðindamanni okkar á Norðurlandi, Sturlu Birgissyni umsjónarmanni og leigutaka við Laxá á Ásum, Reikna má fastlega með því að það sem gildir og stendur með hans á, eigi við fjölmargar af hans nágrannaám. Við spurðum Sturlu um göngur, skilyrði, hvort að árnar ættu eitthvað inni með haustinu og annað. Og Sturla sagði:

„Mér finnst vera svipað af laxi núna og í fyrra og 2019. Það sem er að drepa alla töku núna er langvarandi hiti, rigningaleysi, og stanslaus sól Og fyrir vikið, mikill gróður.  Þegar fer að rigna og góð haustlægð kemur verður bingó. Varðandi laxagöngur voru þær sterkari í júlí en í fyrra en ekkert að skila sér í ágúst.“

Orð Sturlu koma heim og saman við samtöl sem við höfum átt nýverið, ekki síst við umsjónarmenn, veiðimenn og leigutaka á Vesturhluta landsins. Dæmi er um ríflega 100 laxa holl í Laxá í Dölum í dreplitlu vatni , Sporðaköst greindu frá, það er ekki nýtt að laxinn gefist upp á að bíða. Fyrir ekkert allt of mörgum árum var vatnslaust langt fram í júlí og allt í einu fylltist Laxá í Kjós af laxi. Skilyrði ömurleg, en torfurnar tróðu sér upp.

Norðausturhornið er svona meira spurningarmerki. Þar var mjög íþyngjandi framan af hversu mikið vatn var í ánum, endalaus snjóbráð og flóð, enda mikill snjór í fjöllum og hitabyglja sem eiginlega má segja að standi enn. Svo eru líka breytingarnar á veiðitilhögun, þær henta kannski ekki langvarandi vatnavöxtum og litðu vatni. E ástandið hefur skánað og fregnir herma að nokkuð góðar smálaxagöngur séu nú helstu ám Vopnafjarðar.