Gunnar Örlygsson með einn af síðustu löxunum sem veiddust í Jöklu fyrir yfirfall þetta sumarið.

Jökla er komin á yfirfall, því miður, það gerðist í lok helgarinnar, Hálslón var orðið fullt og það fór að flæða yfir. Þetta er ömurlegt því að veiðin hefur verið fantagóð í ánni í sumar. Metveiði er samt afskaplega líkleg.

Jökla sjálf er nú úr leik en göngur í hana hafa verið þær öflugustu sem menn muna og lax að veiðast upp eftir allri á, allt að 100 km frá sjó. Þar efra eru frábær búsvæði fyrir laxinn sem hefur fest þar rætur svo um munar. En veiði er ekki þar með lokið, enn er að sjálfsögðu veitt í hliðaránum, Laxá, Fossá og Kaldá auk þess sem vatnamót þeirra við Jöklu geta gefið vel. Þá er að nefna Fögruhlíðará og ós hennar sem rennur sjálfstætt þar nærri og á ós skammt norðan við ós Jöklu.

Þar með eru báðar íslensku laxveiðiárnar sem eru undir þessa sök seldar, Jökla og Blanda, komnar á yfirfall og þó menn viti alltaf að yfirfallið komi, er það alltaf jafn svekkjandi.

Jökla var komin með 680 laxa að kvöldi 19.ágúst samkvæmt tölum angling.is og að baki var vika sem gaf 121 lax. Besta vika Jöklu í sumar. Hún náði nokkrum dögum í viðbót áður en að yfirfallið skall á, en metið sem stendur enn er frá 2015, 815 laxar. Samkvæmt frétt frá leigutaka Jöklu, Strengja, hafði áin bætt við sig 115 löxum frá miðvikudagskvöldi og fram að helgi og var því komin í 795 laxa þegar yfirfallið brast á. Metið er því í stórhættu, enda aðeins tuttugu laxar í að jafna það og hliðarárnar og vatnaskilasvæðin geta án vafa skilað því og vel það, enda er veitt langt inn í september.