Veitt á efsta svæði Eystri Rangár, fossinn í baksýn.

Eystri Rangá er komin vel yfir 2000 laxa, þangað var áin komin og ríflega það í fyrradag. Það koma nýjar vikutölur í kvöld eða nótt og þá má sjá hversu góður gangurinn hefur verið, en vikuna á undan veiddust 905 laxar í ánni.

„Eystri Rangá er komin yfir 2000 laxa,“  sagði Árni Baldursson á FB færslu í fyrradag. Bætti svo við í dag að í gær hefðu 146 laxar veiðst í ánni. Ef að aðeins er miðað við sléttu töluna 2000 þá höfðu veiðst 428 laxar, en „yfir 200“ þýðir náttúrulega fleiri laxar og síðan hafa menn haldið áfram að moka upp laxi. Hvort að vikan nær þeirri síðustu verður að koma í ljós, en margir eru þegar farnir að spá í hvort að metveiði gæti verið í uppsiglingu í ánni. Á angling.is er hæsta talan sem finnst frá 2007 þegar 7473 laxar voru skráðir. Árið 2008 voru þeir einnig yfir 7000, talan þá 7013 stykki. Hafa verður í huga að veiðitíminn er mun lengri í Eystri Rangá (Rangánum báðum raunar), en veitt er vel inn í október.