Ásgarður, Björn Roth, Árni Baldursson
Myndlistarmaðurinn Björn Roth var nýlega í Ásgarði og var fljótur að setja í fisk. Mynd Árni Baldursson.

Sogið er að lifna á ný, það kom mjög gott skot á dögunum en svo fjaraði undan því. Nú er aftur vaxandi straumur og allt í besta gír á ný. Sama má segja um fleiri ár og svæði á Suðurlandi, laxagöngur á Suðurlandi bara fínar.

Til marks um batnandi veiði í Soginu þá voru þrjár stangir í Ásgarði í gær með tíu laxa landaða og nokkra missta. Sogskarlinn Ásgeir Ebenesar skrapp í tvo tíma í dag og landaði fjórum. Augljóslega enginn skortur á landi í Soginu að svo stöddu.

24 laxar voru dregnir af svæðum 1-2 í Stóru Laxá á tveimur dögum um helgina. Margir misstir og að sögn kunnugra talsvert magn af laxi í ánni. Svæðin eru komin með á þriðja hundrað laxa það sem af er, sem er frábært í síðsumarsá eins og Stóru Laxá.

Og til að setja punktinn yfir i-ið með fjörugar göngur á Suðurlandi, þá hafa verið að veiðast frá 55 og uppí tæpa hundrað laxar á dag í Eystri Rangá. Líflegt hefur einnig verið í Ytri Rangá þó að við höfum akkúrat núna ekki tölur yfir það.