Laxveiðinni að ljúka – rýnt í niðurstöður

Sólheimafoss með fiskveginum nýja. Myndin er frá Hreggnasa, leigutaka árinnar.

Nú er laxveiðinni að ljúka ef undan eru skyldar sleppitjarnarárnar á Suðurlandi. Lokatölur hafa hrúgast inn og mikið verið talað um slakt sumar. En hver er staðan og við hvað skal miðað, hörmungarsumarið 2019 eða toppsumur fyrir fáum árum? Við ætlum næstu daga að rýna í tölur og bera saman. Byrjum á að skoað samhliða tvær ár sem geta næstum talist nagrannaár, en skiluðu alveg sitt hvoru búinu.

Við erum að tala um Laxá í Dölum og Langá.Þar virðist Laxá í Dölum hafa komið með sterkan bata frá því í fyrra versus Langá sem af einhverjum ástæðum náði sér ekki á flug. Samt naut hún þess lengi framan af sumri að hafa vatnsmiðlun í Langavatni, þannig að vatnshæð til veiða var lengst af mun hagstæðari en í Dölunum. Laxá nýtur reyndar líka vatnsmiðlunar, en varð samt mjög fljótt mjög vatnslítil þegar lítið sem ekkert rigndi fyrr en um haustið.

En skoðum fyrst Laxá í Dölum. Angling.is kvittar ekki undir lokatölur í henni, en það geta varla verið nema max 2-3 dagar eftir. Samt var birt vikutala, hún var 143 laxar og lyfti sú tala ánni í 1021 lax. Hún gaf alls 884 laxa í fyrra. Vel að merkja, þetta er fjögurra stanga veiði. Það gerir tæplega 36 laxa á stöng yfir vikuna, eða nálægt fimm löxum á stöng á dag. Sem er náttúrulega fínasta haustveiði. Laxá hlýtur því að flokkast með þeim á sem í sumar var talað um ætti „mikið inni“.

En í stærra samhengi, en við skoðum aftur í tíma, aftur til 2010, þá hefur áin fjórum sinnum farið í 1762, 1711, 1578 og 1207(sem var 2018, síðasta árið fyrir hrunið 2019). Á sama tíma hefur áin verið að gefa minnst 216 og 369 laxa. Þannig að eru engar smá sveiflur.

Langá, Strengirnir, Heimir Óskarsson
Laxi landað neðan við Strengina í Langá. Mynd Heimir Óskarsson.

Og Langá. Hvað er með hana? Hún er með töluna 832 laxa á angling.is, lokavikan gaf aðeins 57 laxa. Í fyrra gaf þó áin yfir 1000 stykki, nánar tiltekið 1086 sem þótti samt fremur rýrt miðað við Langá í góðu ástandi. Og það eru 12 stangir í Langá, þannig að veiði pr stöng í lokavikunni var lítið fagnaðarefni. Einungis fjórir á stöng yfir heila viku.

Og samanburðurinn aftur til 2010: Hann lítur ekki vel út. Átta sinnum hefur áin verið með fjögurra stafa tölu, sú lakasta þeirra í fyrra 1086. En á tímabilinu hefur áin verið með að auki 1098 og upp í 2815 laxa. Árið 2010,  2616 laxa og nefna má í leiðinni að 2009 og 2008 skilaði áin 2254 og 2970 löxum.

Þannig að eitthvað skrýtið og úti á þekju með Langá, því að fljótt á litið virðast vel flestar árnar á vestanverðu landinu vera með bata frá í fyrra, mismikinn, en bata þó og telst hey í harðindum eftir ósköpin 2019. En í það munum við rýna betur á næstu dögum. Margir töluðu um talsvert væri af laxi í ánni, en ef svo var þá a.m.k. skilaði það sér illa í veiðitölum. Ef til vill er of mikið af laxi drepið í ánni, en SVFR leyfir tvo laxa á vakt. Þarna getur því hver stöng hirt 8 laxa í tveggja daga holli. Og stangirnar eru tólf. Að sjálfsögðu er veiðin misjöfn frá degi til dags og frá holli til holls, en það væri fróðlegt að sjá hvað er mikið drepið úr ánnig og hvað er verið að skilja mikið eftir.