
Það hefur rofað nokkuð til í laxveiðinni, sérstaklega á Suður- Suðvestur- og Vesturlandi. Norðan heiða og austan til eru vatnavextir enn að gera veiðimönnum grammt í geði og talið að það teki nokkra daga þar til viðbótar að ná einhverskonar jafnvægi.

Jóhann Davíð Snorrason, leigutaki Eystri Rangár sagði okkur í dag að 18 laxar hefðu veiðst í ánni í gær, en í morgun var komið grugg sem spillti fyrir. Það er að aukast smátt og smátt, þetta fór afar rólega af stað og mér sýnist að það sé alls staðar seinna á ferð þetta árið. En það er eitthvað að hengja sig á þegar maður sér göngur fara vaxandi dag frá degi,“ sagði Jóhann Davíð og bætti við að komnir væru 80 laxar á land.

Stóra Laxá opnaði með myndarbrag og Þá hafa borist fregnir af vaxandi göngum á vestanverðu landinu, t.d. var holl í Norðurá nýverið með 70 laxa. Hollið á undan með 50 laxa. 120 laxar eru að vísu talan sem að eitt holl var að taka undir venjulegum kringumstæðum á þessum tíma sumars fyrir fáum árum, en er samt framför og hamingja miðað við lélegheitin í fyrra, hvað þá 2019. Borgarfjarðarárnar og Langá hafa einnig verið að fá fínar göngur og veiðiskot, sem og árnar sunnar, Laxárnar í Kjós og Leirársveit. Það er þó auðvitað of snemmt að fara að ráða í þetta allt saman eftir því hversu glötuð byrjunin var, en þetta er þó allt saman meira og minna jákvætt í bili.

Nema kannski norðan heiða. Þar er farið að bóla á smálaxi, en hann er oftast seinni þar á ferð en sunnar og því bíða menn spenntir næstu daga. Víða á þessum slóðum hefur verið erfitt að standa í veiðiskap. T.d. sagði Jóhann Davíð okkur þetta: „Ég er búinn að vera á Akureyri að fylgjast með krakkafótboltamóti síðustu daga, skoðaði mig um og ég get sagt að Fnjóská er vatnsmeiri en Þjórsá þessa daganna.“
Í Vopnafirði er ástandið enn erfitt, Selá mikil um sig en Hofsá eiginlega tvískipt. Efri hluti árinnar er vissulega vatnsmikill en nokkuð hreinn. Neðar er hins vegar flóðvatn og gruggt þökk sé hliðaránni Sunnudalsá sem að byltist þreföld og brún á lit þessa daganna. Það eru samt að kroppast upp laxar og stendur vonandi til bóta þegar snjórinn fer að gefa sig, því ekki stafa þessir vatnavextir af rigningu heldur hitabylgju og snjóbráð. Jóhannes Kristinsson sem er öllum hnútum kunnur á Norðausturhorninu orðaði það svo í dag að núna væru að koma leysingarnar sem að öllu jöfnu væru að koma mánuði fyrr.