Einn af höfðingjum Svalbarðsár 2020. Myndin er frá FB síðu Hreggnasa.

Veiðifélagið Hreggnasi gerði viðvart í dag að félagið hefði endurnýjað leigusamning við landeigendur Svalbarðsár í Þistilfirði. Segir í fréttatilkynningu frá félaginu að um „langtíma“ samning sé að ræða.

Ekki miklar breytingar á þessum slóðum, en Hreggnasi hefur haft ána á leigu frá 2007. Tveimur árum síðar var veiðifyrirkomulaginu breytt yfir í veitt-og-sleppt sem hefur bætt seiðabúskap og hjálpað við að halda veiðinni stöðugri þó að hún sveiflist til og frá eins og gengur. En að öllu jöfnu er áin í hópi þeirra sem hafa hæstu meðalveiði á stöng. Þá er stórlaxavon góð og vart líður vertíð að einn eða fleiri um eða yfir meterinn eru dregnir að landi.