Líf að færast í Sogið

Agnes Þóra með fallegan lax úr Ásgarðinum í gær. Mynd Tómas Lorange.

Við höfum fylgst með líflegum opnunum í Stóru Laxá í Hreppum að undanförnu og nú er röðin komin að Soginu, þar er nú allt að lifna eftir reyndar einkar góða bleikjuveiðivertíð í vor. Á það einkum við um Ásgarðsveiðarnar.

Fyrsti laxinn úr Syðri Brú í Soginu, efsta veiðisvæðinu með hinum víðfræga veiðistað Landaklöpp, það sem þessi veiddist, 86 cm hrygna. Myndin er fengin af FB síðu veida.is, sem er einn stærsti veiðileyfasöluvefur landsins.

„Laxinn er að ganga í Sogið núna, fimm komu á land í gærmorgun, líflegast var við Frúarstein. Ég hef frétt af fleiri löxum í dag og að það sé líflegt í Ásgarði, greinilega spennandi tímar fram undan“ segir Árni Baldursson staðarhaldari í Ásgarði.

Glímt við lax í Kúagili Alviðrumegin í Soginu. Þessi lak af í löndun, en sett var í þrjá sem allir sluppu og lax að sýna sig víða. Myndin er fengin frá veida.is, veiðileyfasöluvefnum.

Fyrir utan Stóru Laxá og Sogið má bæta við að enn ein áin á þessum sömu slóðum, Tungufljót, hefur verið að skila sínu síðustu daga. Ekki mikið farið í hana til þessa, enda oftast talin meiri síðsumarsá, en síðustu sumur hefur borið á því að fiskur gangi fyrr í ána. Nafntogaðasti veiðistaðurinn er kenndur við fossinn fagra Faxa, þar niður af er gríðarlega veiðileg breiða og þar safnast laxinn í stórar torfur. Síðustu daga hafa laxar verið að veiðast þar. Þetta svæði er einnig undir umsjón Árna Baldurssonar hjá Lax-á.