Það er komið að því, þetta eru síðustu dagar stangaveiðivertíðarinnar. Lokadagur í sjóbirtingsám er n.k. fimmtudag, 20.október. En fregnir herma að svæðið sé enn að jafna sig eftir flóðin á dögunum. Sami dagur hefur löngum einnig verið lokadagur laxveiðiáa á Suðurlandi sem að byggja afla sinn og göngur á sleppingu gönguseiða.

Jón Hrafn Karlsson leigutaki Eldvatns sagði okkur í dag að hann hefði ekið yfir Landbrotsárnar Tungulæk og Grenlæk í dag og þær væru báðar vatnsmiklar og skolaðar, enda hefði „Skaftá verið í miklum ham á dögunum,“ eins og hann orðaði það og þær myndu hafa fengið grugg með vatni undan hrauninu. Það er algengt að ár þessar verði býsna vatnsbólgnar þegar vætutíð hefur staðið, en sára sjaldgæft að þær verði gruggugar vegna eðli þeirra, þ.e.a.s. þær koma blátærar undan hrauni. Því er erfitt að spá fyrir um hversu lengi þær verða að jafna sig. Hitt er svo annað mál að vel má veiða í þeim þó eitthvað grugg sé í vatninu.

Aðrar ár á svæðinu fóru ekki varhluta af flóðelgnum og eru þær enn  vatnsmiklar. Ögn vestar, í Heiðardal ofan Mýrdals, sagði Ásgeir Arnar Ásmundsson umsjónarmaður Vatnsár, að efri hluti árinnar hefði verið eins og vígvöllur eftir flóðin, en bót í máli að veiði var lokið. Og til að bæta gráu ofan á svart þá eru að koma leifar ad fellibylnum Natösju á miðvikudag með tilheyrandi slagveðri. Eftir endalausa þurrka sumarsins er engu líkara en að vertíðinni sé að skola til hafs með stórflóðum á lokametrunum.