Laxá í Aðaldal – Hvað er til ráða?

Falleg mynd tekin neðan við Kistukvísl í Laxá í Aðaldal. Myndin er fngin hjá Matthíasi Þór Hákonarsyni veiðileyfasala á Akureyri.

Gangur mála í „drottningunni“ sjálfri Laxá í Aðaldal hin seinni ár hefur verið hroðalegt áhorf. Þó að enn orni menn sér við rómantík stórra laxa, þá segja tölurnar allt sem segja þarf, áin er í andaslitrunum og dauðdaginn gríðarlega langdreginn og ömurlegur. En hverjar eru skýringarnar og er enn hægt að snúa við blaðinu?

Hér að neðan eru tölur sem allir geta skoðað á angling.is, vef Landsambands veiðifélaga. Þessar tölur ná aftur til ársins 1975 og þó að auðvitað séu sveiflur á milli ára, þá var þessi á ekki að fara niður fyrir fjögurra stafa tölu. Fellur nokkuð eftir köldu árin 1979 og 1980, en fer ekki niður fyrir fjóra stafi.

Það er ekki fyrr en 1999 að menn hrökkva í kút þegar áin dettur niður fyrir þúsundið. Vissulega náði hún aðeins vopnum sínum næstu árin, af og til, en frá 2017 hefur kúrfan verið geigvænleg, dettur þá úr 1207 löxum í 709 og síðan hefur bara verið ógnar skrið niður á við. 388 laxar í fyrra og örfáum sporðum meira á nýliðinni vertíð. Samt er aðeins veitt á flugu og öllum laxi sleppt. Þannig að eitthvað af þessum löxum eru tví- ef ekki þríveiddir. Og þetta er átján stanga á. Sporðaköst nenntu að reikna nýlega út meðalveiði á stöng fyrir 2021og þar kom fram að veiðimaður, eða „stöng“ í Laxá gat gert sér vonir um einn lax yfir þriggja daga holl. Bestu árnar gáfu fyrirheit um 3 laxa á dag. Ansi mikill munur þar á.

VoV hefur rætt við all nokkra um hverjar skýringarnar geta verið. Þær eru eflaust fleiri en ein og án vafa fleiri en tvær. Á allra vitorði eru sveiflur sem tengjast ástandi í hafi og kemur niður á öðrum ám, a.m.k. í einstökum landshlutum.

Æðarfossar í Laxá í Aðaldal

En það er gömul saga og ný, að allir nefna gamla drauginn. Kráká og sandburðinn. Kráká er nokkuð vatnsmikil lindá sem fellur í Laxá í Mývatnssveitinni eins og flestir vita. „Það vita allir að sandurinn hefur gerbreytt botnlagi Laxár,“ sagði einn viðmælenda okkar og óþarfi að nefna hann sérstaklega því fleiri sögðu það sama. Við uppflettingu má sjá að farið var að ræða sandburð Krákár árið 1995, jafnvel fyrr. Af tölunum hér að neðan má sjá að þó að það komi góð ár og slæm, þá er veiðin að byrja að dala á þessum tíma. Þau ár sem áin heldur fjögurra stafa status sínum þá eru það samt lægri fjögurra stafa tölur. Eins og það tekur tíma, mörg ár, að byggja upp ónýt eða ný svæði, getur það líka tekið mörg ár að rífa þau niður og eyðileggja.

En svo segja sumir: Hvers vegna þrífst urriði þarna sem aldrei fyrr, fiskur sem þarf grófan malarbotn til að hrygna og þrífast, líkt og laxinn? Kráká er öll í sandi en þar þrífst samt sæmilegur urriðastofn og ekki virðist þetta hafa afgerandi áhrif í Mývatnssveitinni. Hins vegar minnkar nýliðun þegar komið er niður í Laxárdal þó að enn orni menn sér þar við að setja í og landa gömlum hundum. En neðan virkjunar þrífst urriðinn mjög vel. Kannski vegna þess að hann er úrræðabetri og getur betur nýtt sér það sem í boði er og þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af því að laxinn keppi um búsvæðin? Kannski er það vegna þess að hann getur nýtt sér Mýrarkvísl og Reykjadalsá/Eyvindarlæk þar sem skilyrðin eru betri og laxinn á líka undir högg að sækja.

Þegar stórt er spurt er stundum loðið að fá eitt gott svar, en eins og Six Rivers Project hélt heila ráðstefnu á dögunum um framtíð Atlantshafslaxins á heimsvísu, væri ekki úr vegi að haldin yrði ráðstefna sem einblíndi á þessa stórmerku og sérstöku laxveiðiá. Hvað er að og hvað er hægt að gera til að bæta og lækna.