Það er ekki að ástæðulausu að veiðimenn séu farnir að hafa nettar áhyggjur af vatnsbúskapnum á komandi vertíð, enda hleður engum snjó niður og ef að úrkoman er hvít einn daginn, þá er hún rigning daginn eftir að allt hverfur. Myndin sem hér fylgir var tekin við Langá á Mýrum í dag, 9.janúar og verður ekki sagt að vetrarríki herji á Borgarfjörðinn.

Það var Ingvi Hrafn Jónsson sem tók þessa mynd við veiðihúsið sitt Sólvang við Langá í dag, 9.janúar og hafði á orði: „Langá 9.janúar . Hlýnun jarðar í köldum veruleika !!!“ Hann telur þó að að óbreyttu ætti vatnshæð í Langá að vera í lagi „snemmsumars“, en það er vegna þess að Langá nýtur vatnsmiðlunar í Langavatni, en fæstar árnar hafa slíkan lúxus uppá að hlaupa.

En svona er ástandið afar víða á landinu, enda hefur veturinn verið óvenjulega hlýr og miklu oftar rigning heldur en snjókoma. Einn af glúrnari veiðimönnum þessa lands, Eyþór Sigmundsson, eða Eyþór kokkur eins og svo margir þekkja hann betur sem, sagði gjarnan að þegar hugað væri að vatnsbúskap og snjóalögum, þá væri það sá snjór sem safnaðist í fjallaskörð og gil fyrir áramót sem mestu skipti. Varla féll nokkur slíkur snjór fyrri hluta þessa vetrar og þar sem hvítt er í fjöllum þá er hulan ekki þykk. Það gæti þó alltaf bjargað málunum að fá ærlegt rigningarsumar.