Betri tímar að fara í hönd….með blóm í haga?

Elliðaárnar; Veitt í SJávarfossi. Mynd Heimir Óskarsson.

Það veiddist enginn lax á vakt Dags B í gærmorgun, en einn veiddist síðdegis. Það er þó nokkuð síðan að menn voru að sjá laxa renna inn, en þrátt fyrir allt veiddist ekkert og kannski karma þar sem Ásgeir Heiðar var ekki við stjórn opnunarinnar, sleppa honum, engin veiði! En hver veit?

En allt um það, enn er vaxandi straumur, Jónsmessan þann 24.júní og stórstreymt daginn eftir og hvað? „Sjávarfossinn er pakkaður af fiski“, sagði Jón Þ.Einarsson, fyrrverandi veiðivörður í færslu á FB síðu áhugamanna um Elliðaárnar fyrr í dag. Áður höfðu margir orðið til að segja að reikna með smálaxi í straumi sem var 11.júní væri óskhyggja af hæstu gráðu. En kannski er hann að koma núna, í Jónsmessustraumnum. Það væri geggjað, því ekki virðist vera mikið af tveggja ára laxi í ár, sama hvert litið er, að vísu á eftir að opna í Vopnafirði og Jöklu og þar hefur verið ansi gott jafnvægi síðustu sumur. Þar opnar seinna í vikunni, Hofsá og Selá og Jökla.