Laxá í Aðaldal, Brúarhylur
Laxá í Aðaldal, myndin tekin við Brúarhyl. Mynd, -gg.

Sporðaköst á mbl greindu frá því í vikunni að Laxárfélagið hefði ákveðið að endurleigja ekki svæði sín í Laxá í Aðaldal frá og með sumrinu 2021. Það eru mikil tíðindi, en félagið tók mörg svæði í Laxá fyrst á leigu 1941. Laxárfélagið er þannig séð stórmerkilegt.

Með upprennandi sumri eru þá 79 sumur sem félagið hefur svæði sín á leigu. Þetta er eflaust eitt lengsta samfellda samstarf leigutaka og landeigenda sem um getur, til samanburðar má geta þess að þegar SVFR tapaði Norðurá um árið, hafði félagið haft ána á leigu í 66 ár samfleytt. Það eina sem er líklega eldra er leigutaka SVFR á Elliðaánum, en félagið var stofnað 17. maí árið 1939 og var tilgangur þess til að byrja með að halda utan um leigu á Elliðaánum. Sem það gerir enn þann dag í dag. Það er tveimur árum áður en Laxárfélagið var stofnað.

Laxárfélagið var stofnað í  júní árið 1941 og hófst þar með leiga Laxár­fé­lags­ins á stór­um hluta Laxár í Aðal­dal í Suður Þing­eyj­ar­sýslu. Sporðaköstin höfðu eftir Jóni Helga Björnssyni á Laxamýri að í hönd færu vissir óvissutímar og ekki væri tilbúið á borðinu með hvaða hætti brugðist yrði við. Verður fróðlegt að fylgjast með því, en ekki verður sagt að þetta sé góður tími fyrir landeigendur að taka á slíku máli. Engir erlendir veiðimenn að koma fyrst um sinn, auk þess sem að Laxá hefur verið í nokkurri niðursveiflu hin seinni ár. Laxárfélagið, sem hefur verið skipað þremur deildum, í Reykjavík, á Akureyri og á Húsavík, tapar með þessu næstum áttatíu ára  tilgangi sínum þó að eflaust muni margir Laxárfélagsmenn vilja veiða áfram í ánni um ókomin ár.