Oddur Ingason með 108 cm risahænginn úr Hnausastreng í morgun.

Stóru, stóru hængarnir eru nú farnir að láta á sér kræla eins og venjulega þegar komið er fram í september. Þeir eru færri núna en í fyrra, en lita alltaf lífið á bökkum vatnanna. Í dag komu tveir 108 cm drjólar á land!

Nils Folmar, Laxá í Aðaldal
Nils Folmer með 103 cm úr Laxá í Aðaldal, Nesveiðum.

„Í dag“, í gær auðvitað, komið fram yfir miðnætti. 2.september.  Það komu sem sagt tveir 108 cm risar á land í dag. Annar kom úr Breiðdalsá, sem kom kannski mest á óvart því að þar hefur varla veiðst lax svo vikum skiptir. Tveir yfir heilan mánuð. En í dag lauk fluguveiðitíma og spúnn var leyfður. Veiddust þá strax tíu stykki, þannig að áin var nú ekki alveg tóm. Það kom 108 cm tröll á land úr Sveinshyl, sem er stærsti lax sem menn muna að hafi komið á land úr ánni.

Haukur Einarsson
Haukur Einarsson með tröllið…

Hinn 108 cm risinn kom úr Vatnsdalsá. Kom úr Hnausastreng á kvart tommu rauða Frances og var hann þess utan  með 52 cm ummál. Áður höfðum við greint frá tveimur 109 cm tröllum úr Hofsá sem „stærstu“ löxum sumarsins, en seinna kom í ljós að í báðum tilvikum var um sama laxinn að ræða.

Jóhann Rafnsson með 101 cm hæng úr Laxá´í Aðaldal.

Svo, eins og sjá má af myndunum, er Laxá í Aðaldal að venju að skila risum. Við höfðum áður sagt frá 106 cm laxi Nils Folmars Jörgensens og svo skellti Jóhann Hafnfjörð Rafnsson sér á vettvang og landaði 101 cm drjóla. Það er sem sagt allt að gerast.