Brokkgeng byrjun – Víðidalsá fremur lífleg

Stefán Ákason með glæsilega hrygnu úr Laxá í morgun.

Veiði hófst í fjórum meiri háttar laxveiði ám í dag, Elliðaánum og Víðidalsá í morgun og Vansdalsá og Laxá í Aðaldal seinni partinn. Alls staðar var lax, en hvergi mikið, helst þó að Víðidalurinn stæði undir minni háttar væntingum.

Steán var maður dagsins, hér er hann með seinni laxinn…

„Þetta voru sex fiskar fyrsta daginn, fjórir í morgun og alla vega tveir seinni partinn. Það er ekkert mikið af fiski en það hefur sést eða verið sett í á öllum svæðum. Þetta eru allt 82 til 84 cm hrygnur. Menn halda að það sé lítið af fiski, en samt var sett í tíu í morgun, sex sluppu og eftir daginn hafði verið sett í 15 þó að aðeins sex næðust á land. Skilyrði voru ekki góð, glampandi sól og það eina sem gaf voru litlar flugur, helst á hitsi. Það er af sem áður var að talað var um að það þýddi ekki að kasta flugu fyrr í júlí,“ sagði Jóhann Rafnsson umsjónarmaður við Víðidalsá í samtali í kvöld.

Fannar Jónsson með einn af fyrstu löxum Víðidalsár í sumar.

Laxá í Aðaldal opnaði einnig, seinni partinn og í fyrsta skipti er öll áin í gangi saman, Nes og Laxamýrasvæðin. Jón Helgi Björnsson sendi okkur stutta skýrslu: „Fengust 2 í Æðarfossum, einn í Sjávarholu og annar í Miðfosspolli, báðir 84 cm hrygnur. Þrír misstust þar á meðal einn stór á Knútstöðum. Menn reistu fiska víða um ána.“

Vatnsdalsá opnaði einnig en ekki fengust aðrar upplýsingar þaðan en að þar hefði verið líf og hvað Elliðaárnar varðar þá veiddist ekkert á fyrstu vakt.