Neðri hluti Urriðafoss í Þjórsá, þar er m.a. veiðistaðurinn Hulda. Myndin er frá IO Veiðileyfi.

Laxinn er mættur á Urriðafossvæðið í Þjórsá, einn leigutaka svæðisins, Stefán Sigurðsson hjá IO Veiðileyfi, var þar á ferð í dag og sá tvo laxa stökkva.

Laxinn var að stökkva í Huldu.

„Já, laxinn er mættur í Þjórsá, við sáum tvo laxa stökkva í veiðistaðnum Huldu sem er neðri hluti Urriðafoss,“ sagði Stefán.

Þetta er alveg í stíl við fyrri reynslu bæði Stefáns og fleiri sem þarna hafa skoðað sig um á þessum slóðum um og uppúr miðjum mai. Oft hefur verið talað um að Þverárlaxinn í Borgarfirði, sem gengur allt fram í Kjarrá sé snemmgengasti stofn landsins, en í Þjórsá er staðan hin sama. Síðustu sumur hefur veiði hafist um og uppúr 25.mai og ávalt verið stórlax að ganga. Eitt kom fram í óformlegu spjalli við Vigfús Orrason, er talið barst að Þjórsá og Urriðafossi, að reynsla IO kæmi sér ekki á óvart, hann hefði oft í gegnum árin verið að tilraunaveiða á svæðinu alveg frá miðjum mai og iðulega og oftast sett í stórlaxa í hörku göngu.