Tveir úr Þverá, enginn úr Blöndu

Þverá í Borgarfirði, Kaðalstaðahylur, Ingólfur Ásgeirsson
Laxinn er mættur í Þverá í Borgarfirði,. Myndin er frá Kaðalstaðahyl, þar sem fyrsti lax sumarsins veiddist.

Tveir laxar veiddust í Þverá í dag, enginn í Blöndu. Þetta voru stóru opnarirnar í dag. Kannski ekki alveg á pari við björtustu vonir, en það var samt lífsmark í ánum og kannski var ekki búist heldur við að tveggja ára laxinn yrði sterkur í ár. En sjáum til.

Andrés Eyjólfsson í Síðumúla, einn helstu leiðsögumanna í Þverá sagði að aðstæður hefðu verið góðar og að borið hefði á laxi víða. En ekki kannski mikið, einn kom úr Kaðalstaðastrengjum í morgun 75 cm og síðan hefði sami veiðimaður landað 88 cm fiski á Brennunni, sem eru ármót Þverár og Hvítár. Þar var talsvert líf, fiskur að stökkva.  Aðrir veiðimenn núllluðu, en sumir reistu fiska. Myndir eru því miður ekki til reiðu.

Í Blöndu var eftirmiðdagurinn rólegri en morguninn. Enginn lax veiddist, þ.e.a.s. náðist á land, þrír misstust í morgun og fleiri voru reistir, að sögn Reynis Sigmundssonar. En eftir hádegið gerðist lítið. „Það voru draumaskilyrði“, sagði Reynir í samtali við VoV, en allt kom fyrir ekki.