Selá, Narri, Gísli Ásgeirsson
Gísli Ásgeirsson að landa laxi í veiðistaðnum Narra fyrir fáum árum. Þar sjást nú nýir laxar daglega!

Veiði hefst ekki í Selá fyrr en 24.júní, en kunnugir eru að sjá laxa út um alla á þessa síðustu daga og viku. Segja menn ástandið í þessum efnum ekki eiga sér hliðstæðu og að laxinn sé að ganga miklu fyrr en venja er.

Aðal upplýsingagjafi okkar á vettvangi er Gísli Ásgeirsson sem er umsjónarmaður árinnar. Rétt fyrir helgi sendi hann okkur þetta skeyti: „Frábær dagur hér í Selá. Ég sá 3 í Fossinum, einn í Djúpabotni og 3 í Narra. Tvær vikur í opnun. Og í dag kom annað skeyti. „Þetta er spennandi, það voru sex laxar í Narra í morgun.

Þetta eru sannkallaðar gleðifréttir því að það hefur verið nokkur niðursveifla í Vopnafjarðaránum síðustu árin. Í fyrra var fyrsta árið eftir fimm ár á undan, að vatnshiti og vatnsmagn var hagstætt seiðabúskap árinnar. Að sögn Gísla virðist nú annað árið í röð ætla að sverja sig í þá ætt, „það eru allavega farin að ganga seiði niður úr Vesturdalsá og útlitið er líka gott með Selá,“ sagði Gísli.