Borgarfjörðurinn: „Það sem búast mátti við“

Norðurá, Brotið
Veiðimenn að skyggna Brotið í Norðurá. Mynd Heimir Óskarsson.

Opnunarhollið í Norðurá endaði með sjö laxa landaða og sex missta. Heldur líflegra en í Þverá sem var með tvo í gær og engan í morgun. Aðstandendur beggja ána segja þetta vara í stíl við það sem búast hefði mátt við, þ.e.a.s. frekar lítið af stórlaxi eftir smálaxafæð í fyrra.

„Ég er ekki ósáttur við þetta miðað við væntingar,“ sagði Einar Sigfússon sölustjóri Norðurár í samtali við VoV í dag. Taldi hann sjö laxa opnun algerlega ásættanlega og sagði hann að auki að hann væri þess viss að mailaxinn hafi strikað uppúr, og það myndi ekki koma á óvart þó að nýja hollið myndi finna hann t.d. á Berghylsbroti og uppi við Krók. Jafnvel víðar. „Skilyrðin fyrir hann voru það góð, en fyrsti hópurinn fór ekki þangað upp eftir og svo var áin um tíma eins og jökulvatn vegna sólbráðar í hlýju veðrinu. „Þá var ekkert hægt að skyggna þessa lykilstaði þarna upp frá, en næsti hópur ætlar að láta slag standa og athuga hvort að fiskur sé ekki genginn uppúr öllu,“ bætti Einar við.

Þverá séð frá Helgavatni á fallegum sumardegi. Mynd TMD

Ingólfur Ásgeirsson hjá Störum, leigutaka Þverár sagði að menn sæju lax víða í ánni, en það væru ekki margir fiskar þótt þeir væru á víð od dreif. Tveir veiddust fyrsta daginn, en enginn í viðbót í morgun. Hann taldi eins og Einar að snemmgengnasti laxinn væri kominn lengst upp í Kjarrá, en hún opnar þann 9.júní. „Þetta er það sem búast mátti við eftir slakt smálaxaár í fyrra, að það yrði minna eða lítið af stórlaxi í ár.

Tvennt hefur gerst þessa fyrstu daga í Borgarfirðinum sem menn hafa til þessa talið góðs viti. Númer eitt að stórir hængar hafa verið í aflanum frá fyrsta degi og númer tvö, að daginn áður en að Norðurá var opnuð veiddu menn nýgenginn smálax á Ferjuklöpp sem heyrir undir veiðisvæði Skugga, sem eru vatnamót Grímsár og Hvítár. Að stórir hængar veiðist snemma og að smálax sýni sig svo snemma þótti löngum vita á góða laxgengd. Spurning hvort að þetta heldur enn þann dag í dag?