Umræðan um laxeldið: Ég skil ekki, ég veit ekki

Laxar. Mynd Einar Falur.

Það er loksins komin viðspyrna við yfirgengilegum áformum laxeldismanna og ekki seinna vænna. Þrír Kastljósþættir í röð helgaðir þessari býsn ýttu af stað umræðu og baráttu sem að mun bara magnast á næstunni. En þrátt fyrir ýtarlega umfjöllun þá hefur mörgum fundist vanta eitthvað….

….mikilvægir  póstar verða útundan, svo umfangsmikið er málið. Hér ætlum við VoV-verjar að koma með einhver innlegg á stangli. Þetta verður ábyggilega sundurlaust , enda punktar komnir héðan og þaðan, ekki hvað síst eftir óformlegt samtal við Pétur Pétursson, leigutaka Vatnsdalsár og Reykjadalsár í Reykjadal.

Það stórmál að umræðan hafi komist uppúr spólfarinu þar sem málsvarar auðugu útlendinganna vildu granda framtíðarbyggð í sjávarþorpunum, eins og það var iðulega framsett.

Að það væru einungis stangaveiðimenn sem settu sig á móti fiskeldinu. Ríku karlarnir vildu sem sagt fá að hafa sportið sitt í friði á kostnað búsetu í sjávarþorpum.

Að það væru engar sannanir fyrir því að erfðablöndun laxastofna gætu haft hrikalegar afleiðingar.

Að hér gætu ekki orðið lúsafaraldrar vegna þess að sjórinn er of kaldur.

Að eftirlit yrði svo gott að lax myndi ekki sleppa úr kvíum og ef svo ólíklega vildi til, þá yrði gripið til „viðeigandi ráðstafanna“. Það ætti hvort eð er að bæta svo búnaðinn á næstu misserum.

Að í Noregi væru menn að hrökklast frá svona vinnubrögðum vegna gífurlegra vandamála sem þau hafa leitt af sér.

Og að engu skipti þó að yfirgengileg mengun væri á hafsbotni undir sjókvíunum, því að eldismenn myndu færa kvíarnar reglulega til að svæðin gætu „hreinsað sig“….og þannig mætti raunar nærri endalaust við bæta.

Sjókvíaeldi fyrir vestan.

Samt sem áður eru ákveðnar staðreyndir fyrirliggjandi.

Laxar sleppa úr sjókvíum. Nú síðast 20þúsund stykki í Skotlandi, úr sambærilegum kvíum og notaðar eru hér á landi í dag. Og samkvæmt fréttum þá hefur ekki svo mikið sloppið þar á einu bretti síðan…..í mai á síðasta ári!  Ekki fyrir tíu árum, bara í fyrra. 30þúsund stykki þá. En nei, laxar sleppa ekki úr kvíum. Svo gleymist það líka stundum að það eru laxveiðiár á Vestfjörðum, t.d. þrjár í Djúpinu. Og það eru sjóbleikjustofnar sem lús gæti herjað á. Einnig sjóbirtingur þótt minnst sé af honum. Og það eru líka laxveiðiár á Austfjörðum m.a. nokkrar frægar. Þar er líka mikið af sjóbleikju.

Það er líka staðreynd, að laxalús hefur alltaf verið hér viðloðandi. Fyrrum og nú hefur það verið talinn gæðastympill á laxi að bera nokkrar lýs. Það væri til marks um að hann væri nýgenginn. Það sýnir að lúsin hefur þrifist hér í kaldari sjó en nú er að finna við strendur landsins. En núna finnur lúsin sér veisluborð með hrikalegum lífsmassa í hlýnandi sjó! Fjöldi þeirra margfaldast. Og vei þeim laxfiskum, seiðum eða fullorðnum fiskum, sem eiga leið hjá.

Laxalús; Svona getur lúsin leikið laxinn og sjóbirtinginn.

Pétur sagði okkur að þegar hann hlýddi á og tæki þátt í þessari umræðu kæmu ótrúlega oft upp í hugann setningar á borð við: Ég skil ekki og ég veit ekki. „Hér er allt í lagi að vera með frjóan lax af erlendum uppruna. Ég hef sagt við forystusveit Landsambands veiðifélaga að þeir ættu að hvetja til þess að félagar úr þeirra röðum óskuðu eftir að fá að flytja til landsins hrúta frá Skotlandi. Lofa að hafa þá bara í girðingu og ef að þeir slyppu út þá yrðu gerðar „viðeigandi ráðstafanir“.  Væri fróðlegt að vita hver svör hins opinbera yrðu við slíkum beiðnum. Svo má nefna, að það fást ekki leyfi til að flytja hreindýr frá Austfjörðum til Vestfjarða, þó er ekki verið að tala um erlendan hreindýrastofn. Ekki fékkst leyfi til að sleppa nokkrum fashönum á lokuðum rýmum til skotveiða þrátt fyrir að fuglarnir væru ræktaðir á hérlendu búi austur á Héraði og myndu ekki blandast nokkurri annarri tegund þó þeir væru að spranga um í íslenskri náttúru. En það er allt í lagi að nota hér frjóan laxastofn af erlendum uppruna. Ég veit ekki og ég skil ekki,“ sagði Pétur og rifjaði einnig upp þau endalausu boð og bönn sem hann mætti á kaupmannsferli sínum er hann reyndi að flytja inn hreindýrakjöt og rjúpur. Var það þó allt saman dautt kjöt.

Pétur nefndi líka mengunarumræðuna sem einhvern vegin fór lítið fyrir í þrefaldri umfjöllun Kastljóss á dögunum. Mengun sem fylgir þeirri stærðargráðu af laxeldi sem um er rætt, er yfirgengileg. Saur og fóðurleifar setjast á botninn undir kvíunum og það hlaðast upp hraukar. Lífríki hafsbotnsins undir kvíunum kafnar. Eldismenn segja að þeir hafi þar ráð undir rifi hverju, þeir færi kvíarnar einfaldlega til og þannig hreinsi hafið til eftir þá, væntanlega með hafstraumum og sjávarföllum. Pétur segist ekki muna eftir því að talað hafi verið um hversu lengi hafsbotninn væri að ná sér aftur á strik. Þeir sem þekktu eitthvað til sjávarfalla vissu að botninn er ekkert á fleygiferð. Einver sandur væri að reka til og frá en settist gjarnan í var við þang eða steina. Þvert á móti væru saur og fóðurleifahrúgurnar eins og malbik og væri ekki líklegt að að brotna upp og hverfa, nema e.t.v. á afar löngum tíma. Og á meðan væru eldismenn að malbika meira og meira út um alla firði.