„Háskólinn“ fer vel af stað

Sævar Snorrason með fallegan urriða úr vatninu. Myndin er frá Veiðikortinu.

Veiði hófst í Elliða- og Helluvatni á Sumardaginn fyrsta, þ.e.a.s. 22. apríl síðast liðinn. Nokkuð góð veiði hefur verið þótt dagaskipti hafi verið. Allt er það urriði sem veiðst hefur.

„Það er búið að vera fín veiði í Elliðavatni það sem af er tímabils, en vatnið opnaði 22. apríl s.l., segir Ingimundur yfirmaður Veiðikortsins. Elliðavatn hefur oft verið nefnt Háskóli veiðimannsins, svo dyntóttur getur fiskurinn verið. Á vef Veiðikortsins segir hann frá því að veiðimaúrinn Sævar Snorrason hafi nýlega verið í vatninu og sett í tvo væna urriða. Aðrir hafa sett í fleiri, einn sem VoV fylgdist með á Engjunum í dag setti þrjá í háfinn á sirka kortéri. Þetta eru ágætlega vænir urriðar, og hafa farið stækkandi þeir stærstu síðustu árin. Púpur hafa gefið, einnig smáar straumflugur. Heyrst hefur meira að segja að þurrflugur hafi átt sín augnablik, þótt ótrúlegt megi ef til vill telja. En samt kannski ekki.

Lítið sem ekkert hefur farið fyrir bleikju til þessa, hún kemur jafnan seinna inn í veiðina, og hefur að auki fækkað í vatninu síðustu árin.