Fáséð meðalstærð í opnun Elliðaána

Gylfi Magnússon með 89 cm hæng úr Elliðaánum í morgun, svona laxar eru fáséðir í ánum. Myndin er fengin af FB síðu Elliðaána.

Lokatala morgunsins í Elliðaánum var níu laxar og þetta var ekki aðeins lífleg opnun heldur í hæsta máta óvenjuleg, því sjö af níu löxum voru tveggja ára laxar. Einn í yfirstærð, 20plús, slapp og fleiri mjög stórir eru í ánni.

Við heyrðum í Ásgeiri Heiðari í vaktalok og hann var undrandi yfir því sem borið hafði við. „Þarna voru stærðir sem að sjást ekki að öllu jöfnu. Alls veiddust níu laxar og voru sjö þeirra tveggja ára, 76 til 89 cm.  Sjálfur setti ég í einn sem var sá stærsti sem ég hef nokkru sinni séð í ánni, hvað þá sett í. Þetta var í Teljarastreng og yfir meterslax. Ég var í góðri aðstöðu til að meta það því að fiskurinn stökk tvisvar rétt hjá mér og ég sá þá þvert á hann. En við þennan lax réði ég ekkert við, með léttar græjur og tíu punda taum. Hann tók tvisvar rokur upp að teljaragrind og svo í æðandi spretti niður að stíflunni. Í þriðja skiptið stoppaði hann ekki við stífluna heldur lét sig vaða yfir hana og hélt sprettinum áfram. Ég reyndi að elta en hafði ekki við honum og á endanum sleit hann þennan granna taum,“ sagði Ásgeir, sem setti þarna í fjóra á flugu, landaði tveimur og missti tvo. Þetta voru einu flugulaxarnir í morgun, aðrir laxar komu á maðk. Ásgeir bætti við að ekki væri sérlega mikið komið af laxi í ána, hins vegar hefði rigning síðustu nóttina ásamt vaxandi straum skilað nýjum fiskum í ána.