Einn ósáttur.

Stangaveiðivertíðin hefst n.k. fimmtudag, þá opna all margar ár og vötn. Í aprílveiðinni fer jafnan mest fyrir sjobirtingsveiði, en einnig opna nokkrir staðir með staðbundnum fiski, m.a. Þingvallavatn.

Þetta er stór dagur í dagatali stangaveiðimanna. Augun hafa einkum beinst að „þeim stóru“ í Vestur Skaftafellssýslu, Eldvatni, Tungufljóti, Tungulæk, Geirlandsá, Vatnamótum og fleiri. Ár sem eru þekktar fyrir góða veiði og stóra fiska. En víðar hefur birtingurinn verið veiddur, Ytri Rangá, Varmá, Grímsá, Leirvogsá, Húseyjarkvísl, Litlaá í Kelduhverfi og eflaust víðar.

Eldvatn hefur verið sterkt og í sókn síðustu árin, VoV hleraði aðeins Jón Hrafn Karlsson einn leigutaka árinnar og spurði um stöðu og væntingar:  „Vatnsstaðan í ánni er góð , íslaus. Smá snjór à slóðum en ekkert sem ætti trufla menn. Eftir mjög mildan vetur erum við nokkuð bjartsýnir á opnunina,“ sagði Jón Hrafn.

Svo er Geirlandsáin, þar heyrðum við í Gunnari Óskarssyni formanni SVFK, en stjórn félagsins opnar ána að öllu jöfnu. Hann sagði, stutt og laggott:  „Staðan er svolítið önnur en í fyrra. Allt lítur vel út samkvæmt nýjustu fréttum í dag. Eins og staðan er þá förum við austur á morgun og hefjum veiðar á fimmtudag fyrir hádegi.  Við erum bara spenntir, enda horfurnar betri en oft áður.“

Apríl flaggskip Fish Partner er Tungufljót, en auk þess er komið nýtt svæði hjá til tilraunar, kennt við Ásgarð við Skaftá og er skammt neðan við vatnaskil Skaftár og Tungulækjar.

Hjá SVFK snýst allt um Geirlandsá sem hefur verið með magnaðar opnanir hin síðari ár og fiskur mjög stækkandi.

Ef litið er t.d. á vef Iceland Outfitters má sjá þrjá flotta aprílkosti, Leirá í Leirársveit, Brúará fyrir landi Sels og Hólaá í sömu sveit fyrir landi Austureyjar. Á tveimur síðast nefndu stöðunum er vænn staðbundinn silungur, en birtingur í Leirá og hefur veiði þar verið vaxandi. Svo er örugglega nóg að finna á veiða.is og veiðitorg.is

Veiðikortið er með sæg af möguleikum, ekki síst Hraunsfirði sem var orðinn íslaus fyrir nokkrum dögum og hinn álitlegasti. Og ekki má gleyma silungasvæðum Sogsins og svo gamla góða Minnivallalæk.

Veðrið byrjar vel en skellir sér síðan í vetur

En hvernig skyldi viðra á menn þessa fyrstu daga vertíðarinnar. Samkvæmt veðurkortum á vef Veðurstofunnar verður veður vel þolanlegt miðað við árstíma, dálítill strekkingur úr suðvestri og hitatölur vel yfir núllinu. En frá og með sunnudegi, Páskadegi, er annað uppi á teningunum. Þá er eins gott að miðstöðvarnar í bílunum virki og að heitt sé í brúsunum.