Tungufljót, Syðri Hólmi
Sá kyngimagnaði veiðistaður Syðri Hólmi í Tungufljóti. Þarna sér út í skilin við Ása Eldvatn. Mynd Heimir Óskarsson.

1.apríl er næst komandi mánudag og þá opna all nokkur svæði, einkum sjóbirtingsár. Flestar eru þær á Suðurlandi, en fáeinar á Vestur- og Norðurlandi. Veðurkortin bjóða ekki á nein óveður, en það eiga margir puttar eftir að dofna, svo mikið er víst!

Við kíktum á vef Veðurstofu Íslands í dag, tókum púlsinn á Kirkjubæjarklaustri og síðan Húsavík, en Litlá í Kelduhverfi og Húseyjarkvísl í Skagafirði eru helstu vígin norðan heiða. Ef við skoðum fyrst Klaustur, þá er spáin klukkan sex um morguninn NA 2, -4 og lítilsháttar snjókoma. Klukkan 12 er NA 2, 1 gráða í plús og skýjað. Klukkan sex um kvöldið er NV 5, blátt 0 og léttskýjað. Sem sagt engin láti, en kalt. Árnar verða kaldar og fingur líka.

Húsavík. Klukkan sex um morguninn er S4, -4 og léttskýjað. Klukkan tólf er S3 -2 og skýjað. Klukkan sex er S5, -2 og lítilsháttar snjókoma. . Á sama tíma eru snjókumtákn bæði á Akureyri og Blönduósi.

Þetta er alveg slatti af svæðum sem opna, má nefna Tungufljót, Tungulæk, Vatnamót, Geirlandsá, Varmá, Leirá, Grímsá, Húseyjarkvísl og Litlaá. Þá má nefna Minnnivallalæk, auk nokkurra vatna sem opna „þegar ísa leysir“, en ekki er víst að það sé alls staðar að fyrirfinna.