Eldvatn, Eldvatnsbotnar
Eldvatn í Meðallandi. Myndin er tekin í Eldbatnsbotnum. Mynd -gg.

Hinn fornfrægi sjóbirtingsveiðistaður Eldvatnsbotnar, sem eru upptakakvíslar Eldvatns í Meðallandi, hefur nú verið lokaður fyrir allra veiði tvö næstu árin.

SVFR hefur verið með „Botna“ síðustu árin og svæðið verið nokkuð vinsælt. Þar er rígvænn sjóbirtingur og einnig bleikja sem hefur að vísu verið í niðursveiflu. En leigutíma SVFR lauk í fyrra og var ekki samið uppá nýtt. Jón Hrafn Karlsson leigutaki neðri svæða Eldvatns sagði í samtali við VoV, að félag hans hefði tekið upp viðræður, en Kjartan bóndi í Botnum ákveðið í framhaldi af því að leigja svæðið ekkert næstu tvö árin. „Til lengri tíma litið þá kemur þetta sjóbirtingnum á svæðinu til góða,“ sagði Jón Hrafn.

Þá hefur annað svæði á þessum slóðum verið í umræðunni, Steinsmýrarvötn. Um sölu veiðileyfa þar hafa lengi staðið deilur þar sem það tengist Veiðifélagi Eldvatns og það félag hefur viljað halda vötnunum friðuðum þar sem þar þykir vera afbragðsgóð uppeldisstöð fyrir ungan og uppvaxandi sjóbirting. Fyrr í vetur var farið að auglýsa þar veiðileyfi og hófst þá ferli sem sér svo ekki fyrir endan á, þ.e.a.s. þegar í ljós kemur hvort að þangað mæti menn til veiða með veiðileyfi upp á vasann. En skv því sem Jón Hrafn tjáði okkur hafi veiðileyfi ekki verið seld, „en það kemur í ljós,“ bætti hann við.