Eldvatn, sjóbirtingur
Glæsilegt eintak úr Eldvatni. Myndin er frá FB síðu Eldvatns

Eftir erfitt tímabil vegna sólskinsdaga og þurrka lengst af í september þá hefur sjóbirtingsvertíðin aftur hafið sig til flugs. Haustið er alltaf erfitt með allskonar veðri og aðstæðum, en þeir sem fá þær bestu fá ævintýrin. Það er fullt af fiski, spurning hvað veðurguðirnir gera fyrir okkur?

Anna Dórothea, Geirlandsá
Fanney Dóróthea með 10 punda birting ýur Ármótunum í Geirlandsá. Mynd Arnar Óskarsson.

Við höfuð það fyrir satt að mikið sé af fiski í Tungufljóti en því miður engar veiðitölur að svo stöddu. Þær eru væntanlegar, en Fljótið leið fyrir alla sólardaganna, birtingurinn er ekki fyrir birtu og sól, er verri en laxinn í þeim efnum. En menn sjá þar mikið af fiski og um helgina glæddist veiðin, enda rigndi loksins. En við heyrðum í Jóni Hrafni leigutaka Eldvatns og hann sagði þetta um stöðuna: „Aðstæður hafa verið erfiðar , í heila viku var sól og logn , fiskur sást víða en mjög tregur að taka. Síðan gerði loks rigningu og rok á laugardags seinnipart og það var ekki að spyrja að því að á Sunnudagsmorgun komu 14 fiskar á land , um alla á“

Í Vatnamótunum hefur verið fín veiði. Svo mikið höfum við heyrt af þeim ýmsu sem við ræðum við. Einn sem við heyrðum í var þar í þrjá daga og landaði 14 birtingum, flestum 60 til 70 cm og tveimur sem voru í kring um 80 cm.

Geirlandsá var undir sömu sök seld og Tungufljót, þurrkur, sól og logn, en um helgina glæddist og þá veiddist vel, m.a. 10 punda birtingur sem við birtum hér mynd af.

Elli Steinar, Eyjafjarðará, sjóbirtingur
Erlendur Steinar Friðriksson, „Elli Steinar“ með 75 cm birting af svæði 4 í Eyjafjarðará…

Þá má frá því greina að víða Norðanlands eru menn einnig að landa fallegum birtingum, enda hefur urriðinn verið að nema land á kostnað fækkandi sjóbleikju síðasta áratuginn eða svo. Við leyfum tveimur myndum frá Eyjafjarðará að fylgja hér með, 75 og 78  cm tröll sem virðast sverja sig í ætt við ísaldargeniin í Þingvallavatni og Vestur Skaftafellssýslu.