Vesturhópið að skila sínu að venju

Vesturhóp er einstaklega fjölskylduvænt veiðisvæði.

VoV er á sveimi um landið og verður á Vopnafirði næstu daga. En á leiðinni eru ýmis veiðivötn og ár, m.a. Vesturhóp, sem við kynntumst reyndar í fyrra. Reynslan af vatninu var frábær og erum við þó litlir vatnaveiðimenn.

Í fyrsta lagi hittum við veiðimenn sem voru í vatninu í vikunni og létu vel af. „Við fengum all nokkra góða urriða,“ sagði Tommy Za, stórveiðimaður og afgreiðslumaður í Veiðihorninu. Síðan fór sendinefnd frá VoV í vatnið og gekk ekki alveg eins vel, enda á vettvangi þegar síst skyldi, um miðjan dag í sólinni. Þarna á að veiða kvölds og morgna. Veiðimenn sem voru á sveimi létu hins vegar vel af veiðinni í vatninu, en SVFK er þarna með frábæra aðstöðu fyrir veiðimenn og er þetta sérlega fjölskylduvænt svæði.