Bókin með sinni glæsilegu kápumynd.

Jólagjöf veiðimannsins þarf ekki að vera veiðigræja, veiðibók eða yfir höfuð nokkuð sem snertir veiði. Nema kannski óbeint, þess vegna ætlum við hér að segja frá nýútkominni bók sem er ekki veiðibók, en er nógu nálægt jaðrinum til að höfða til veiðimanna og náttúruunnenda yfirleitt. Það er bókin Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin eftir Sigurð Ægisson.

Sem sagt, einhver mestu náttúrubörn og náttúruunnendur þessa lands eru veiðimenn og hljóta því margir þeirra að vilja fræðast nánar og meira um íslensku fuglana, ekki síst þá dulúð sem þjóðtrúin sveipar marga þeirra.

Sigurður Ægisson. Myndin er fengin af FB síðu Sigurðar.

Ritstjóri VoV og Sigurður voru samstarfsmenn á Mogganum fyrir ansi hreint mörgum árum síðan og þá þegar var hann á kafi í fuglum, lífi þeirra og þjóðtrú og þá þegar var hann orðinn ríflega lipur náttúrulífsljósmyndari, enda kemur fram að hann hafi unnið að efnisöflun í bókina meira og minna í aldarfjórðung. Og það sést, bókin er 455 blaðsíður í stóru broti og ríkulega myndskreytt, bæði með ljósmyndum sem hann hefur margar hverjar tekið sjálfur og eins teikningum og málverkum er tengja hinar ýmsu tegundir við þjóðtrúna, aðallega á Íslandi, en einnig erlendis frá þar sem því má bæta við. Allar þær 75 tegundir fugla sem teljast til reglulegra varpfugla eru teknar fyrir, sem og fáeinar aðrar sem eru á jaðrinum, eins og t.d. keldusvín og Snæugla sem áður urpu reglulega en ekki er eins víst með nú til dags.

Umfjöllum um hverja tegund fylgir útbreiðslukort viðkomandi tegundar og eðli málsins samkvæmt er mismikið um hinar ýmsu tegundir að segja frá þjóðtrúnni hér á landi og erlendis frá. Íslensk þjóðtrú hefur t.d. lítið um tegundir eins og brandönd, svartþröst og fleiri sem að teljast nýlegir varpfuglar. En þeim mun meira hins vegar um kumpána eins og krumma, músarindil, hrossagauk og haförn. Svo dæmi sé tekið. Þá er gaman að segja frá því að Sigurður gefur rými undir hverafugla, sem eru þjóðsagnakenndir fuglar sem hafa einkum sést syndandi á heitum hverum og stungið sér þar á kaf ef styggð hefur komið að þeim. Hvað þar hefur verið á ferðinni skal ósagt látið, en nógu oft sáust þeir fyrr á öldum. Lítið samt eða ekkert hina seinni áratugi.

Sigurður byggir tegundalista sinn sem sagt að mestu á áliti Náttúrufræðistofnunar sem telur 75 tegundir teljast rótfasta og reglulegar. Í framtíðinni, komi til endurskoðunar og nýrrar útgáfu, mætti telja líklegt að tegundir sem eru að fikra sig áfram hérlendis og eru alveg við það að festa rætur, fái að fljóta með og nefnir t.d. dvergmáf, fjallkjóa, skógarsnípu, gráþröst og fjöruspóa, auk þess sem umferðarfuglar á borð við margæs, blesgæs, tildru, rauuðbrysting og sanderlu komi líka til greina.

Þetta er doðrantur, enda segir Guðjón á Hólum, sem er útgefandi bókarinnar, að Sigurður Ægisson gefi aðeins út doðranta. En þetta er auðlesinn og stórfróðlegur doðrantur og sómir sér vel í bókahillum náttúruelskandi veiðimanna.