Magnús Viðar Arnarson með nýgenginn smálax í lokaholli Hofsár í dag. Athyglisvert að enn sjáist nýgenginn lax. Myndin er fengin af FB síðu Jóns Magnúsar Sigurðarsonar.

Hofsá í Vopnafirði rauf í dag þúsund laxa múrinn, en það hefur áin ekki gert síðan sumarið 2013, eða fyrir sjö árum. Áin er sú níunda á þessu sumri sem kemst í fjögurra stafa tölu.

Á heldur döpru laxasumri hefur Hofsá verið ein af örfáum ám í landinu sem hafa verið beinlínis líflegar og blikandi af laxi. Áin hefur verið á sígandi og öruggri uppleið síðustu sumur eftir mikla niðursveiflu sem kom í kjölfarið á tveimur hamfaraflóðum sem komu 2013 og 2014 og rústðu lífríki árinnar, eyddu m.a. hrygningarsvæðum á stórum köflum. Sumarið 2013 var býsna gott, 1160 laxar veiddust og allir sáttir. En flóðin höfðu alvarlegar afleiðingar og veiðin þvarr og þvarr uns hún náði botni sumarið 2016 er aðeins 492 laxar veiddust. Í kjölfar flóðanna var gripið til ýmissa aðgerða, laxi sleppt upp fyrir foss, og síðustu árin hrognagröftur. Áin hefur verið að síga hægt, en örugglega til baka eftir áföllin og datt í þúsund laxa í dag, frá því greindu bæði FB síða Hofsár og Jón Magnús Sigurðarson á Einarsstöðum, formaður Veiðifélags Hofsár og leiðsögumaður. Áfanginn náðist í lokahollinu.

Vel má vera að hærri tala hefði náðst ef ekki hefði verið kuldatíð og leiðindi stóran hluta september. En allt um það, það skiptir ekki öllu máli, veiðin var með miklum ágætum og allir sammála um að talsvert mikið hafi verið af laxi í ánni, bæði stór og smár. Verður fróðlegt að sjá vegferð árinnar næsta sumar, hvort hún heldur upp-kúrfu sinni eða eitthvað annað. Að sama skapi, eins og oft hefur komið fram, þá er merkilegt hvað þetta afmarkaða svæði hefur gefið vel í sumar, auk Hofsár, Selá og Miðfjarðará norðar og Jökla sunnar. En um leið og komið er yfir í Þistilfjörð og Sléttu er ekki hægt að segja það sama, lítið af smálaxi að draga tölur niður. Hvað þá þegar farið er vestar á Norðurlandinu.