Metfjöldi laxa um fiskveginn

Efrifoss í Selá. Þar er efri laxastigi Selár. Mynd -gg.

Þegar Sporðaköst birtu frétt í haust þess efnis að 200 laxar hefðu gengið upp nýjan farveg Hítarár, í kjölfarið á náttúruhamförum í dalnum, vakti talan með okkur minningu, einnig frá  haustinu um aðra 200 laxa.

Þannig er nefnilega mál vexti að síðasta sumar gengu 200 laxar upp fyrir Efrifoss í Selá. Upp fiskveg sem Jóhannes Kristinsson byggði upp á eigið eindæmi eftir að hafa náð til þess samkomulagi við Veiðifélag Selár árið 2006. Þetta er mesti fjöldi laxa sem gengið hefur um fiskveginn frá því að gerð hans lauk. Það vita allir að uppræktun af þessu tagi getur tekið mörg ár. T.d. hafði veiðifélag Miðfjarðarár sleppt seiðum upp fyrir Kambsfoss í Austurá í áratug áður en að laxastiganum þar var lokið. En með gerð þessa fiskvegs lengdust búsvæði Selár um eina tuttugu kílómetra. Allt að svokölluðum Urðarkambi. Rannsóknir höfðu sýnt að svæðið væri líklegt til laxaframleiðslu. Og sú hefur orðið raunin.

Þessi metfjöldi laxa sem að gekk s.l. sumar um fiskveginn í Efrifossi er einstaklega athyglisverður í ljósi þess að veiði var fremur dauf í Selá s.l. sumar miðað við síðustu sumur, bæði minna af laxi, svo og nánast stanslaus hitabylgja fram í ágústlok.