Farið að þenja köstin – þeir fyrstu komnir á land

Harpa Hlín Þórðardóttir með fyrsta fiskinn úr Leirá 2022, rígvænan sjóbirting. Mynd Stefán Sig.

VoV hefur haft spurnir af fyrstu fiskum vorsins, m.a. úr Leirá sbr myndin sem þessu fylgir. En einnig víðar frá, m.a. Tungufljóti, Tungulæk og Vatnamótum. Vísast skýrist þetta allt saman betur eftir fyrstu vakt þegar fer að nást í veiðifólk.

En þetta er sem sagt að fara vel af stað, enda skilyrðin sjaldan verið jafn hagstæð í byrjun apríl. Margir muna t.d. þegar stjórnarmenn í SVFK voru að freista þess að ryðja burtu ís sem lá þvert yfir Ármótin, aðeins örmjó læna í miðjum. Með plönkum, skóflum og veiðistöngum tókst að losa um jaka,sem síðan tóku með sér aðra jaka og svo koll af kolli. Niðurstaðan var mokveiði eins og oft vill verða í byrjun vertíðar í Geirlandsá sem og víðar.