Hrikaleg hrygna úr Vatnamótunum um helgina. Myndir eru frá Cezary.

Mitt í öllum veiðifréttum sumarsins og haustsins hefur lítið farið fyrir fréttum af mögulega allra besta sjóbirtingsveiðisvæði landsins, Vatnamótunum, sem eru ármót Skaftár, Geirlandsár(Breiðabalakvíslar), Hörgsár og Fossála. Þetta er frábært svæði og hefur alltaf verið, þar hefur verið geggjuð veiði að undanförnu.

Cerzary með einn um 80 sentimetrana.

Cezary Fijalkowski hefur verið þarna í góðra vina hópi síðustu daga og gengið vel þrátt fyrir rysjótt veður. „Þetta er einn albesti veiðistaður í heimi, ég sagði það um Þingvallavatn um daginn, en Vatnamótin eru á sama stað. Þetta er frábær staður og hér er mikið af fiski og margir stórir. Margir yfir 90 cm,“ sagði Cezary í skeyti til okkar á VoV.

Glæsilegur hængur úr Vatnamótunum.

Við höfum ekki tölur úr Vatnamótunum, en það er kannski ekki aðal atriðið þegar kemur að fréttum af veiði nú til dags. Allt snýst öðru fremur um upplifun og gæði umfram magn. Þannig á það að vera. En stundum fer þetta tvennt saman og þannig er það í Vatnamótunum núna. Og bergvötnin munu njóta góðs af þegar fiskur fer að færa sig ofar þegar að hrygningu kemur.