Kristján Páll hefur verið að kynna sér silungsveiðimöguleika fljótsins umfram sjóbirtingsveiðina að undanförnu. Þarna er m.a. rígvænan staðbundinn urriða að hafa eins og myndin sýnir.

Veiðifélagið Fish Partner hefur aukið við valkosti gagnvart viðskiptavinum sínum. Félagið tók nýverið við hinu víðfræga Tungufljóti sem er þekktast fyrir sjóbirting vor og haust. En um hásumar er annað og fleira í boði.

Kristján Páll Rafnsson hjá Fish Partner hafði .þetta að segja: „Tungufljótið er jú annáluð sjóbirtingsá en fæstir vita hversu flotta veiði er hægt að gera utan sjóbirtingstíma. Það er mjög falleg staðbundin bleikja í fljótinu og eitt af fallegri veiðisvæðum landsins er ofan Bjarnafoss. Þar má finna urriða í töluverðu magni sem einstaklega gaman er að eiga við. Einnig er laxinn oftast að mæta um miðjan júlí í fljótið.“

Fljótið kemur þarna út úr neðra gljúfrinu ofan við Bjarnarfoss.

Það sem Kristján segir hins vegar ekki er að svæðið ofan við Bjarnarfoss er mjög langt. Fyrst er eitthvert magnaðasta gljúfur sem finna má við íslenska veiðiá. Áin hefur gfaið sig djúpt í móbergslögin að ekki sér til botns og 9 feta flugustöng nær bakka á milli. Ofan þessa gljúfurs er nokkurt sléttlendi þar sem áin rennur á eyrum. Þar ofar tekur svo við annað gljúfur sem endar við fossinn Titjufoss.

Á öllu þessu svæði er ekki bara staðbundinn urriði heldur einnig sjóbirtingur og lax. Því fer nefnilega fjarri að Bjarnarfoss sé ekki fiskgengur. Við viss skilyrði fer þar uppp bæði birtingur og lax. Einn roskinn veiðimann hitti VoV hér um árið í veiðibúð Gústa Morthens á Selfossi sem sagði frá röð eftir röð af stórum birtingum neðan í neðra gilinu. Þ‘a hefur VoV einnig rætt við veiðimenn og konur sem hafa fengið bjarta birtinga víða á þessu efra svæði. Aðgengi að því er misjafnt, sums staðar slóðar, annars staðar þarf að ganga. En Kristján Páll laug reyndar ekki með að þarna má finna eitt af fallegri veiðisvæðum landsins.