Fosshylur, Selá, Laxar
Tifandi laxar!

Það er upp og ofan í laxveiðiám þessa lands í sumar. Sumar betri en í fyrra, aðrar lakari. Svona eins og gengur. Þeir eru margir umsjónarmennirnir og leigutakarnir, en einn má vera sáttur með sumarið og það er Einar Lúðvíksson með Eystri Rangá, Affallið og Þverá í Fljótshlíð.

Einar hefur sérhæft sig í ám sem eru ekki sjálfbærar og þróað upp á eigið eindæmi, fyrrum með föður sínum Lúðvík Gissurarsyni, sleppingar gönguseiða. Fyrir löngu vel þekkt fyrirkomulag til að gera laxlitlar ár að góðum og skiemmtilegum laxveiðiám. Einari hefur tekist heldur betur vel upp núna, eins og oft áður, og Eystri Rangá og Affall eru komnar langt umfram heildartölu síðasta árs og Þverá er líkleg til að minnsta kosti jafna góða útkomu síðasta árs.

Eystri Rangá hefur verið að gefa 12 til 34 laxa á dag að undanförnu, allt eftir skilyrðum. Enn láta nýir fiskar sjá sig þótt komið sé haust. Þetta hefur verið gott sumar í Eystri, 3486 voru komnir á land þann 5.9, en allt síðasta sumar veiddust 2143 laxar.

Affallið er í fluggír, var komið með 692 laxa þann 5.9 en gaf aðeins 193 laxa í fyrra. Síðasta holl var með tuttugu laxa. Þá að Þverá, hún hefur verið ójafnari að undanförnu, síðustu holl verið með frá 3 og upp í 18 laxa. Þann 5.9 var áin komin í 409 laxa en gaf allt síðasta sumar 448 laxa.