Finnur með hænginn stóra úr Vaðhvammi.

Eins og venjulega, hvort heldur vertíðin er góð, slæm eða miðlungs, þá fara stóru hængarnir að taka númer til að hrifsa í flugurnar, enda orðnir geðvondir og óþolinmóðir eftir því sem koma skal og þeir hafa beðið eftir í allt sumar. Þeir ná ekki allir 100 cm en geta verið all svakalegir samt sem áður…

…eins og hængurinn hrikalegi sem myndin hér að ofan sýnir. Það var Finnur Jóhannsson Malmkvist sem setti í hann, þreytti og landaði. „Þetta var hörku viðureign, í Vaðhvammi í Vatnsdalsá og laxinn tók rauða Frances,“ sagði Finnur í skeyti til VoV. Vertíðin hefur verið á rólegu nótunum í Vatnsdal og víðar, en þarna er þó stórlaxavonin alltaf söm við sig og eftir því er sóst.