Stórfelld skógrækt við Vopnfirskar laxveiðiár

Þarna er verið að skjóta niður trjáplöntu við Vopnfirska á. Myndin er fengin af vef Six Rivers Project.

Um það bil tíu þúsund trjáplöntur hafa verið gróðursettar á völdum stöðum við laxveiðiár á Norðausturhorninu, aðallega í Vopnafirði. Tengist þetta víðtæku rannsóknarverkefni sem Sir Jim Ratcliffe, fjármagnar og er stýrt af Veiðiklúbbnum Streng. Verkefnið ber heitið Six Rivers Project og má finna það undir því nafni á netinu.

Frétt þessi birtist nú í vikunni á vef SRP og stendur enn fremur þar að um sé langtímaverkefni að ræða og því  sé ætlað að styðja við og vernda laxastofna á Íslandi. Verkefnið kallar á mannafla og fjárfestingu og langtíma markmiðið er að auðga umhverfi ána, sem myndi þar með auðga lífríkið sem að myndi í framhaldinu skapa fjölbreyttari fæðuöflun uppvaxandi laxfiska.

Selá, Vífilsfljót
Svipast um eftir laxi í Vífilsfljóti í Selá. Mynd -gg.

Verkefninu var hleypt af stokkunum í fyrra og hafði Else Möller skógræktarfræðingur umsjón með því, en Helgi Þorsteinsson bóndi á Ytri Nýpi í Vopnafirði og leiðsögumaður veiðimanna við Selá til fjölda ára, hefur tekið við verkefnisstjórninni. Helgi segir í frétt SRP að unnið sé eftir upprunalegu áætluninni  sem Else lagði fram, tilraunagróðursetningar hófust í fyrra og héldu áfram í sumar, en þó setti strik í reikninginn, að sögn Helga, að aðgengi að heppilegum plöntum var erfiðara en reiknað var með. „Í upphafi var þetta erfitt, en svo rættist úr og við höfum nú náð að gróðursetja um tíu þúsund trjáplöntur, helmingurinn er íslenskt birki, afgangurinn ýmsar tegundir sem eiga að ráða við aðstæður og umhverfi.

Við höfum verið hér fimm að störfum, auk mín er verkstjóri og þrjú ungmenni. Við höfum einbeitt okkur að innlendum tegundum, utan hvað álmur er ekki íslensk jurt. Hins vegar er hann harðgerður og náskyldur birkinu okkar og það hafa fundist steingervingar af álmi hér á landi frá því fyrir ísöld.

Fossinn fallegi í Hofsá séður úr lofti. Mynd Einal Falur.

Þessar gróðursetningar miða að því að bæta jarðveg þar sem honum hefur hnignað og með tíð og tíma bætir það lífríkið í heild sinni. Það mun samt taka langan tíma, jafnvel áratugi að fá niðurstöðu hvort að svona vinnar skili því sem vonast er til. Samhliða þessu er mikilvægt að bændur haldi áfram sínum hefðbundna búskap því það auðgar einnig lífríkið með bökkum laxveiðiána,“ sagði Helgi meðal annars.

Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Strengs segir í greininni að þrátt fyrir að íslenskir laxastofnar virðist standa vel í samanburði við stofna í öðrum löndum þá geti niðurstaðan ekki verið að hvaðeina sem gert er til að styðja við tegund í útrýmingarhættu, eigi ekki rétt á sér. „Það sem gert hefur verið hér í Vopnafirði síðustu árin hefur komið í veg fyrir hnignun laxastofna á svæðinu. Hrognagröftur og fiskvegagerð, auk annarra aðgerða hafa stutt við laxastofna í ám okkar hér um slóðir, en heildarmyndin sýnir að laxinn er í stórhættu og því verður að grípa til allra ráða og ef það er ekki gert hér og nú þá er hætta á að Atlantshafslaxinn hreinlega deyi út,“ segir Gísli.

Skoða má meira af svo góðu á www.sixrivers.is