Metið fallið í Eystri Rangá – mögulega í Affallinu líka

Barist við vænan lax í Eystri Rangá fyrir skemmstu. Myndin er frá Lax-á

Eystri Rangá rauf sitt met frá 2007 í síðustu veiðiviku. Veiðin hefur dalað þar nokkuð vegna þeirra aðstæðna sem gjarnan fylgja haustkomu, en hún sigldi metinu farsællega í höfn og á enn talsvert inni. Spurning hvort að Affallið sé komið með metveiði og Jökla skakklappast áfram með sitt yfirfall.

Eystri Rangá 7689 – 327

Gamla metið er frá 2007 og hljóðaði uppá 7473 laxa. Áin er því komin 216 löxum fram úr því og er veidd langt fram í október þannig að metið á eftir að verða þeim mun eftirminnilegra.

Ytri Rangá  2262 – 182

Ytri, ásamt vesturbakka Hólsár heldur áfram á svipuðu róli og verið hefur. Annað sætið í sumar er hennar.

Miðfjarðará  1507 – 100

Miðfjarðará er sú á norðanlands sem stendur upp úr, en miðað við þann háa standard sem þar hefur verið settur síðustu ár, þá er þetta dálítið slakt. Það er samt vert að geta þess að í „gamla daga“, áður en að áin fór að skara jafn hressilega fram úr og raun bar vitni, þá þóttu 1600 til 1800 laxa sumur alls ekki slæm, þvert á móti og frábær gangur ef hún fór einstaka sinnum yfir 2000.

Affall  1422 – 123

Veiðin hefur verið ævintýraleg í Affallinu. Tölur á angling.is ná lengst aftur til 2010 fyrir Affallið og einmitt það ár gaf áin 1021 og æ síðan þangað til nú hefur áin ekki komist í fjögurra stafa tölu þótt oft hafi veiðin talist góð. Er þetta þá mögulega metveiði í ánni?

Selá  1190 – 52

Á þessum slóðum hefur veiði verið frábær í sumar og mikið af laxi. En skilyrði hafa versnað til muna og þá dregur úr.

Haffjarðará  1036 – 63

Nóg af laxi í ánni, en vikutalan sýnir að það er kominn dálítill haustbragur á veiðiskapinn. Skilyrði í síðustu veiðiviku voru auk þess afar misjöfn.

Þverá/Kjarrá  965 – 53

Lokahollið í Þverá er að því er við höldum búið og spurning hvort að Kjarrá sé opin eitthvað lengur. Spurning því hvort að fjögurra stafa talan náist þegar öll kurl eru komin til grafar. En hvort að það gerist eða ekki þá er þessi vertíð mikil vonbrigði fyrir alla sem að Þverá/Kjarrá koma.

Urriðafoss  962 – 3

Það slaknar alltaf á göngum þarna þegar líður að hausti og skilyrði hafa auk þess ekki verið vinsamleg á stórum köflum. Svæðið er eigi að síður mun betra en í fyrra.

Hofsá  950 – 55

Það sama má segja um Hofsá og Selá hvað varðar allt saman, fiskgengd og skilyrði. Þær voru mjög samstiga síðustu vikuna. Hofsá er komin í 950 laxa og á alla möguleika á því að komast í fjögurra stafa tölu, sem síðast náðist 2013 þegar 1160 laxar komu á land. Þar eftir skullu á hamfaraflóðin tvö sem rústuðu ánni næstu árin. En batinn er á fínasta róli.

Norðurá  922 – 60

Þó að Norðurá sé skárri en í fyrra þá er þetta mjög slakt og verður ekki mikið betra þar sem áin fer að loka.

Þetta eru topp níu árnar, látum það duga á bili, en rýnum ef til vill í fleiri síðar í vikunni. Endum þetta á nokkrum orðum um Jöklu sem að stefndi hraðbyri í metveiði þegar yfirfallið greip í taumana. Síðan eru liðnar 2 vikur og aðeins 14 laxar komnir á land. Menn gerðu sér vonir um að hliðarárnar og vatnaskilin þeirra myndu sigla metinu í höfn en það hefur gengið hægar en menn væntu, kannski bæði vegna slæmra skilyrða og slakrar nýtingar á veiðileyfum. En þetta ætti að hafast, metveiðin er 815 laxar. Vantar aðeins tíu laxa til að bæta metið um einn lax!