Fallegum birtingi sleppt í Fitjaflóði. Myndin er fengin af FB síðu SVFK.

Eitt af helstu sjóbirtingssvæðum Vestur Skaftafellssýlu er Fitjaflóð, eða „Flóðið“ eins og það er oftast nefnt, svæði 3 í Grenlæk, þar sem áin fleytir sér út í stórt lón. Þar hefur veiði verið mjög góð frá opnun.

Stundum var vindurinn það óhagstæður að Lippan var þrautalendingin og að sjálfsögðu gaf hún vel.

Fitjaflóðið hefur þá sérstöðu að opna miklu mun seinna heldur en önnur sjóbirtingssvæði á þessum slóðum, eða uppúr 10.mai, en ekki 1.apríl eins og flest svæði á svæðinu. Það gefur geldfiski og hrygningarfiski tíma til að hrannast þar upp og oftar en ekki eru veiðitölur þar firnagóðar í fyrstu hollunum, en þar sem opnunin er þetta seint miðað við önnur svæði, fjarar veiðin yfirleitt tiltölulega fljótt út. Þetta gæti þó staðið lengur í ár vegna þess hversu kalt og óvinsamlegt vorið var. En veiði hófst með ágætum, oft hefur valinkunnur hópur Suðurnesjamanna opnað, hluti af hópnum kemur úr stjórn SVFK, en að þessu sinni voru þeir þriðja hollið á vorinu. Við heyrðum í Gunnari Óskarssyni sem er í grúppunni og hann sagði um afraksturinn: „Við vorum þriðja holl á svæðið núna í ár. Við fengum 101 sjóbirting. Hinar ýmsu flugur voru að gefa, bæði straumflugur og púpur í andstreymisveiði. Að sjálfsögðu þarf varla að nefna það að þarna er sleppt. Það var nokkur vindur mest allan tímann sem gruggaði upp flóðið sjálft hluta af veiðitímanum, þannig að erfitt var að veiða þar.“