Litla Þverá
Fallegur veiðistaður í ofanverðri Litlu Þverá. Mynd -gg.

Litla Þverá í Borgarfirði er nú aftur kominn í almenna sölu eftir dálítið hlé í þeim efnum. Hún er lítil og viðkvæm og þolir illa þurrka, þess vegna er veiðitíminn stuttur og aðeins um haustið.

Litla Þverá er athyglisverð spræna, falleg og veiðileg með afbrigðum en eins og svo margar ár í landinu verður hún erfiðari en tárum taki í löngum þurrkum. Sá er þó gallinn að þar sem margar aðrar ár geyma lax við þær aðstæður, þó þeir taki illa, þá geymir stóra Þveráin Litlu Þverárlaxinn á meðan þurrkarnir vara. Því hafa leigutakar árinnar, Starir ehf, brugðið á það ráð að hafa veiðitímabilið frá 25.ágúst til 20.september eða á því tímabili sem menn gera sér vonir um að haustrigningar nái sér á strik.

Litla Þverá, Kambsfoss
Kambsfoss, efsti veiðistaðurinn í Litlu Þverá.

Litla Þverá hefur ævinlega verið lítið stunduð, en hún er frjósöm á með góðum laxastofni. Hún var jafnan höfð sem frísvæði með Þverá og þar af leiðandi tiltölulega lítið veitt í henni. Það var svo 2013 þegar hinir nýju leigutakar komu að málum, að áin var seld sem sérstök eining í fyrsta skipti, en aðeins í stuttan tíma yfir sumarið til reynslu. Það gaf afar góða raun, því að á 45 dögum veiddust 132 laxar. Þá var reyndar gott laxaár og gott vatn í ánni yfir sumarið. Eftir frumraunina hefur ekki gengið jafn vel, bæði vegna þurrka og minni laxagangna sum árin. 2017 var áin einfaldlega hvíld eftir sérlega slakt gengi 2016. Síðasta haust var þó talsvert komið af laxi í ána og því ætla menn nú að reyna þetta uppá nýtt með þessum breytta veiðitíma. Sem fyrr segir eru það Starir ehf sem eru leigutakar að ánni, hinir sömu og leigja Þverá/Kjarrá, Straumana og Brennuna. Einnig sér veiðileyfavefurinn veida.is um sölu lausra daga.