Ingólfur Ásgeirsson með 81 cm hrygnu, sílspikaða, úr Blöndu.

Það er nokkuð líflegt yfir opnunum þetta sumarið. Við heyrðum í Ingólfi Ásgeirssyni í kvöld en hann er í hópi leigutaka Blöndu, Þverár, Kjarrár, Brennu og Strauma. Það var athyglisvert að heyra hans úttekt á opnunum þetta vorið.

„Ég var að koma úr Blöndu í morgun, fékk þar þrjá sjálfur, 81, 87 og 90 cm. Komnir 29 laxar á land frá því að áin var opnuð 5.júní. Það er nokkuð líflegt og talan athyglisverð í ljósi þess að þetta er fyrsta „fly only“ opnun í ánni frá upphafi. Af þessum 29 löxum hefur 26 verið sleppt aftur. Breiðan að norðan er besti staðurinn, þar eru að koma fiskar á hverri vakt og þó að vatnsstaðan sé há þá eru þetta allt yfirborðstökur. Teljarinn stóð í 30 löxum í morgun, en menn vita að eitthvað af laxi fer líka upp fossinn, þannig að það eru kannski komnir 50-60 laxar upp fyirr í heildina. Svo er smálax að byrja að sýna sig sem vekur vonir um gott sumar.“

Um Þverá og Kjarrá sagði Ingólfur. „Það er mjög vorlegt við Kjarrá, miklir skaflar enn í öllum giljum og skorningum. Það er kominn lax þangað upp eftir en hann er dreifður og það þarf að leita. Síðasta holl var með tólf laxa, en aðal tíðindin er eru kannski að þangað er smálax farinn að skila sér. Það má segja að í Þveránni sé svona venjuleg mið-júní veiði. Slatti af stórlaxi á ferð og það eru vísbendingar um að smálaxinn sé að skila sér nú í aðdraganda Jónsmessustraumsins. Þeir sem voru á Brennunni settu t.d. í sjö fiska í gær og mikið líf þar. En hvað annað varðar, þá má segja að ég hef alið nánast allan minn aldur á bökkum áa í Borgarfirði og ég hef varla séð vatnsbúskapinn í betra ásigkomulagi. Ég yrði mikið hissa ef að menn færu að lenda í umtalsverðu vatnsleysi í sumar miðað við hvernig ástandið er þegar ofar dregur í landinu.“